Hallur sagði Flosa allt frá erindum sínum og svo frá viðræðum þeirra
Þorgeirs og svo það að Þorgeir vildi eigi fyrr sættast en Kári gekk að og
bað hann og sagði ósátt sína á ef hann sættist eigi en Kári vildi þó eigi
sættast.

Flosi mælti: "Fám mönnum er Kári líkur og þann veg vildi eg helst skapfarinn
vera sem hann er."

Þeir Hallur dvöldust þar nokkura hríð. Síðan riðu þeir vestur að ákveðinni
stundu til sáttarfundarins og fundust að Höfðabrekku sem mælt hafði verið
með þeim. Kom Þorgeir þá til móts við þá vestan að. Töluðu þeir þá um sætt
sína. Gekk það allt eftir því sem Hallur hafði sagt.

Þorgeir sagði þeim fyrir sættirnar að Kári skyldi vera með honum jafnan er
hann vildi "skulu hvorigir öðrum þar illt gera að heima mínu. Eg vil og ekki
eiga að heimta að sérhverjum þeirra og vil eg að þú Flosi varðir einn við
mig en heimtir að sveitungum þínum og vil eg að sú gerð haldist öll er ger
var á þingi um brennuna. Vil eg Flosi að þú gjaldir mér þriðjung minn
óskerðan."

Flosi gekk skjótt að þessu öllu. Þorgeir gaf hvorki upp utanferðir né
héraðssektir.

Nú riðu þeir Flosi og Hallur austur heim.

Hallur mælti til Flosa: "Efn þú vel mágur sætt þessa bæði utanferð þína og
suðurgönguna og fégjöld. Munt þú þá þykja röskur maður þó að þú hafir ratað
í stórvirki þetta ef þú innir rösklega af hendi alla hluti."

Flosi kvaðst svo skyldu gera. Reið Hallur nú heim austur en Flosi reið heim
til Svínafells og var nú heima um hríð.



148. kafli

Þorgeir skorargeir reið heim af sáttarfundinum. Kári spurði hvort saman
gengi sættin. Þorgeir sagði að þeir voru sáttir að fullu. Kári tók hest sinn
og vildi í braut ríða.

"Eigi þarft þú í braut að ríða," segir Þorgeir, "fyrir því að það var skilið
í sætt vora að þú skyldir hér vera jafnan hvern tíma er þú vildir."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa