Kári svarar: "Eigi spyrðu þessa af því að eigi hafir þú þetta áður ráðið með
þér að vega eigi að liggjandi mönnum og vega skammarvíg."
Síðan æptu þeir á þá. Vöknuðu þeir þá og hljópu upp allir og þrífa til vopna
sinna. Þeir Kári réðu eigi á þá fyrr en þeir voru vopnaðir. Þorgeir
skorargeir hleypur þar að sem fyrir var Þorkell Sigfússon. Í því bili hljóp
maður að baki honum og fyrr en hann gæti unnið Þorgeiri nokkurn geig þá
reiddi Þorgeir tveim höndum öxina Rimmugýgi og rak í höfuð þeim öxarhamarinn
er að baki honum stóð svo að hausinn brotnaði í smán mola. Féll sá þegar og
var dauður. En er hann reiddi fram öxina hjó hann á öxl Þorkatli og klauf
frá ofan alla höndina og féll Þorkell dauður niður.
Í móti Kára réð Mörður Sigfússon og Sigurður Lambason og Lambi Sigurðarson.
Hann hljóp að baki Kára og lagði til hans spjóti. Kári fékk séð hann og
hljóp upp við lagið og brá í sundur við fótunum. Kom þá lagið í völlinn en
Kári hljóp á spjótskaftið og braut í sundur. Hann hafði spjót í annarri
hendi en í annarri sverð en engan skjöld. Hann lagði hinni hægri hendi til
Sigurðar Lambasonar. Kom lagið í brjóstið og gekk spjótið út um herðarnar.
Féll hann þá og var þegar dauður. Hinni vinstri hendi hjó hann til Marðar
Sigfússonar og kom á mjöðmina og tók hana í sundur og svo hrygginn. Féll
hann áfram og þegar dauður. Eftir það snerist hann á hæli svo sem
skaftkringla og að Lamba Sigurðarsyni en hann fékk það eitt fangaráðið að
hann tók á rás undan.
Nú sneri Þorgeir í móti Leiðólfi hinum sterka og hjó þar hvor til annars
jafnsnemma og varð svo mikið högg Leiðólfs að allt tók af skildinum það er
nam. Þorgeir hafði höggvið tveim höndum með öxinni Rimmugýgi og kom hin efri
hyrnan í skjöldinn og klofnaði hann í sundur en hin fremri hyrnan tók við
viðbeinað og í sundur og reist ofan í brjóstið á hol. Kári kom að í því og
rak undan Leiðólfi fótinn í miðju lærinu. Féll Leiðólfur þá og var þegar
dauður.