Þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason og Ásgrímur Elliða-Grímsson buðu heim
Guðmundi hinum ríka. Hann þá heimboðin og gaf sinn gullhring hver þeirra
honum. Ríður Guðmundur nú norður heim og hafði allra manna lof fyrir það
hversu hann kom sér við í þessum málum.
Þorgeir skorargeir bauð Kára með sér að fara en þó riðu þeir fyrst með
Guðmundi allt norður á fjall. Kári gaf Guðmundi gullsylgju en Þorgeir
silfurbelti og var hvorttveggja hinn besti gripur. Skildu þeir með hinni
mestu vináttu. Reið Guðmundur þá heim og er hann úr sögu þessi. Þeir Kári
riðu suður af fjallinu og ofan í Hreppa og svo til Þjórsár.
Flosi og brennumenn allir með honum riðu austur til Fljótshlíðar. Lét hann
þá Sigfússonu skipa til búa sinna. Þá frétti Flosi að Þorgeir og Kári höfðu
riðið norður með Guðmundi hinum ríka og ætluðu menn nú að þeir mundu vera
fyrir norðan land. Þá beiddu Sigfússynir að fara austur undir Eyjafjöll að
fjárheimtum sínum því að þeir áttu fjárheimtur austur að Höfðabrekku. Flosi
leyfði þeim það og bað þá þó vera vara um sig og vera sem skemmst. Flosi
reið þá upp um Goðaland og svo á fjall og fyrir norðan Eyjafjallajökul og
létti eigi fyrr en hann kom heim austur til Svínafells.
Nú verður að segja frá því að Hallur af Síðu hafði lagið ógildan son sinn og
vann það til sætta. Þá bætti honum allur þingheimurinn og varð það eigi
minna fé en átta hundruð silfurs en það voru fern manngjöld. En allir þeir
aðrir er með Flosa höfðu verið fengu engar bætur fyrir vansa sinn og undu
við hið versta.
Sigfússynir dvöldust heima tvær nætur en hinn þriðja dag riðu þeir austur
til Raufarfells og voru þar um nóttina. Þeir voru saman fimmtán og uggðu
alls ekki að sér. Þeir riðu þaðan síð og ætluðu til Höfðabrekku um kveldið.
Þeir áðu í Kerlingardal og tóku þar á sig svefn mikinn.