Guðmundur hinn ríki mælti: "Það vil eg bjóða að handsala fyrir víg þau er
hér hafa orðið á þinginu að mínum hluta til þess að ekki falli niður
brennumálið."

Slíkt hið sama mæltu þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason, Ásgrímur
Elliða-Grímsson og Mörður Valgarðsson. Við þetta gekk saman sættin.

Var þá handsalað í tólf manna dóm og var Snorri goði fyrir gerðinni og aðrir
góðir menn með honum. Var þá jafnað saman vígum en bættir þeir menn sem
umfram voru. Þeir gerðu og um brennumálin. Skyldi Njál bæta þrennum
manngjöldum en Bergþóru tvennum. Víg Skarphéðins skyldi jafnt og víg
Höskulds Hvítanesgoða. Tvennum manngjöldum skyldi bæta hvorn þeirra Gríms og
Helga. Þá skyldu ein manngjöld koma fyrir hvern hinna er inni höfðu brunnið.
Á vígið Þórðar Kárasonar var ekki sæst. Flosi var og ger utan og allir
brennumenn og skyldu eigi fara samsumars nema þeir vildu. En ef þeir færu
eigi utan um það er þrír vetur væru liðnir þá skyldi hann og allir
brennumenn vera sekir skógarmenn. Og var svo mælt að lýsa skyldi sekt þeirra
á haustþingi eða vorþingi hvort sem heldur vildi. Flosi skyldi vera þó utan
þrjá vetur. Gunnar Lambason og Grani Gunnarsson, Glúmur Hildisson, Kolur
Þorsteinsson, þeir skyldu aldrei útkvæmt eiga. Þá var Flosi spurður ef hann
vildi láta dæma fyrir sár sitt en hann kveðst ekki vilja taka fémútur á sér.
Eyjólfur Bölverksson var lagður ógildur fyrir ójöfnuð sinn og rangindi. Var
þessi sætt nú handsöluð og efndist öll.

Þeir Ásgrímur gáfu Snorra goða góðar gjafar. Hafði hann virðing mikla af
málum þessum.

Skafta var engu bættur áverkinn.



Fred and Grace Hatton
Hawley Pa