Þorgeir skorargeir mælti þá við Kára Sölmundarson: "Þar er hann nú Eyjólfur
Bölverksson ef þú vilt launa honum hringinn."
"Eg ætla það nú eigi fjarri," segir Kári og þreif spjót af manni og skaut
til Eyjólfs og kom það á hann miðjan og gekk í gengum hann. Féll Eyjólfur
þegar dauður til jarðar.
Þá varð hvíld nokkur á um bardagann. Snorri goði kom þá að með flokk sinn.
Var þar þá Skafti í liði með honum og hljópu þegar í milli þeirra. Náðu þeir
þá eigi að berjast. Hallur gekk þá í lið með þeim og vildi skilja þá. Voru
þá sett grið og skyldu þau haldast um þingið. Var þá búið um lík og færð til
kirkju en bundin sár þeirra manna er særðir voru.
Annan dag eftir gengu menn til Lögbergs. Hallur af Síðu stóð upp og kvaddi
sér hljóðs og fékkst þegar.
Hann mælti svo: "Hér hafa orðið harðir atburðir í mannaláti og málasóknum.
Mun eg enn sýna það er eg er lítilmenni. Eg vil nú biðja Ásgrím og þá menn
aðra er fyrir málum þessum eru að þeir unni oss jafnsættis."
Fór hann þar um mörgum fögrum orðum.
Kári Sölmundarson mælti: "Þó að allir sættist aðrir á sín mál þá skal eg
eigi sættast á mín mál því að þér munuð vilja virða víg þessi í móti
brennunni en vér þolum það eigi."
Slíkt hið sama mælti Þorgeir skorargeir.
Þá stóð upp Skafti Þóroddsson og mælti: "Betra hefði þér verið Kári að renna
eigi frá mágum þínum og skerast nú eigi úr sáttum við góða menn."