Þá reifði hann það er Mörður nefndi votta að því er kviðurinn var á borinn.
Þá reifði hann það er Mörður nefndi votta að gögnum og bauð til varnar.
Mörður Valgarðsson nefndi sér votta "nefni eg í það vætti," segði hann, "að
eg banna Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum er handselda lögvörn hefir
fyrir hann að taka til varna því að nú eru öll sóknargögn fram komin þau er
sökinni eiga að fylgja að reifðu máli og svo bornum gögnum."
Síðan reifði reifingarmaður þetta vottorð. Mörður nefndi sér votta og beiddi
dómendur að dæma um mál þetta.
Þá mælti Gissur hvíti: "Fleira munt þú Mörður eiga að gera því að eigi munu
fernar tylftir dæma eiga."
Flosi mælti nú við Eyjólf: "Hvað er nú til ráða?"
Eyjólfur svarar: "Nú er úr vöndu að ráða en þó skulum vér nú bíða því að eg
get að nú geri þeir rangt í sókninni því að Mörður beiddi þegar dóms á
málinu. En þeir eiga að nefna úr dóminum sex menn. Síðan eiga þeir við votta
að bjóða okkur úr að nefna dóminum aðra sex menn en við skulum það eigi gera
því að þá eiga þeir að nefna úr þá sex menn og mun þeim það yfir sjást. Er
þá ónýtt allt mál þeirra ef þeir gera það eigi því að þrennar tylftir eiga
að dæma málið."
Flosi mælti: "Vitur maður ert þú Eyjólfur svo að fáir menn munu standa á
sporði þér."
Mörður Valgarðsson nefndi sér votta "nefni eg í það vætti," sagði hann, "að
eg nefni þessa sex menn úr dóminum" - og nefndi þá alla á nafn - "ann eg
yður eigi að sitja í dóminum. Nefni eg yður úr að alþingismáli réttu og
allsherjar lögum."
Eftir það bauð hann þeim Flosa og Eyjólfi við votta að nefna úr aðra sex
menn úr dóminum en þeir Flosi vildu eigi úr nefna. Mörður lét þá dæma málið.
Og er dæmt var málið þá nefndi Eyjólfi sér votta og kallaði ónýttan dóm
þeirra og allt það er þeir höfðu að gert, fann það til að dæmt hafði hálft
fjórða tylft þar sem þrennar áttu að dæma "skulum vér nú sækja
fimmtardómssakar vorar á þá og gera þá seka."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa