Eyjólfur Bölverksson og þeir Flosi sátu um að rengja og gátu ekki að gert.
Mörður Valgarðsson nefndi sér votta. "Nefni eg í það vætti að búar þessir
níu, er eg kvaddi til saka þessa er eg höfðaði á hendur Flosa Þórðarsyni og
Eyjólfi Bölverkssyni, hafa borið á kviðinn og borið þá sanna að sökum."
Nefndi hann sér þessa votta. Í annað sinn nefndi hann sér votta "nefni eg í
það vætti," sagði hann, "að eg býð Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum er
handselda lögvörn hefir fyrir hann að taka til varna því að nú eru fram
komin sóknargögn öll, boðið til eiðspjalls, unninn eiður, sögð fram sök,
borið stefnuvætti, boðið búum í setu, boðið til ruðningar um kviðinn, borinn
kviður, nefndir vottar að kviðburði."
Nefndi hann sér þessa votta að gögnum þeim sem fram voru komin.
Þá stóð sá upp er sökin hafði yfir höfði verið fram sögð og reifði málið.
Hann reifði það fyrst er Mörður bauð að hlýða til eiðspjalls síns og til
framsögu sakar og til sóknargagna allra. Þá reifði hann það því næst er
Mörður vann eið og sönnunarmenn hans. Þá reifði hann það er Mörður sagði
fram sök og kvað svo að orði að hann hafði þau orð öll í reifingu sinni er
Mörður hafði áður í framsögu sakar sinnar og hann hafði í stefnu sinni "og
hann sagði svo skapaða sökina fram í fimmtardóm sem hann kvað að þá er hann
stefndi."
Þá reifði hann það er þeir báru stefnuvætti og taldi þá öll orð þau er hann
hafði áður í stefnu sinni og þeir höfðu í vættisburði sínum "og nú hefi eg,"
sagði hann, "í reifingu minni. Og þeir báru svo skapaðan kviðinn fram í
fimmtardóm sem hann kvað þá að er hann stefndi."
Síðan reifði hann það er Mörður bauð búum í setu. Þá reifði hann það því
næst er hann bauð Flosa að ryðja kviðinn "eða þeim manni er handselda
lögvörn hefir fyrir hann." Þá reifði hann það er búar gengu að dómi og báru
á kviðinn og báru Flosa sannan að sökinni "báru þeir svo skapaðan níu búa
kvið þenna fram í fimmtardóm."