Mörður gekk að dómi og nefndi sér votta og vann eið að því að meiri hlutur
var rétt kvaddur búanna. Kvaðst hann þá hafa borgið frumsökinni "skulu
óvinir vorir af öðru hafa metnað en því að vér höfum hér mikið rangt í
gert."
Var þá rómur mikill að því ger að Mörður gengi vel fram í málinu en töldu
Flosa og hans menn fara með lögvillur einar og rangindi.
Flosi spurði Eyjólf hvort þetta mundi rétt vera en hann lést það eigi víst
vita og sagði lögsögumann úr því skyldu leysa.
Fór þá Þorkell Geitisson af þeirra hendi og sagði lögsögumanni hvar komið
var og spurði hvort þetta væri rétt er Mörður hafði mælt.
Skafti svarar: "Fleiri eru nú allmiklir lögmenn en eg ætlaði. En þér til að
segja þá er þetta svo rétt í alla staði að hér má ekki í móti mæla. En það
ætlaði eg að eg einn mundi nú kunna þessa lagarétting nú er Njáll er dauður
því hann einn vissi eg kunna."
Þorkell gekk þá aftur til þeirra Flosa og Eyjólfs og sagði þeim að þetta
voru lög.
Mörður Valgarðsson gekk þá að dómi og nefndi sér votta "í það vætti," sagði
hann, "að eg beiði búa þá, er eg kvaddi um sök þá er eg höfðaði á hönd Flosa
Þórðarsyni, framburðar um kvið að bera annaðtveggja af eða á. Beiði eg
lögbeiðingu að dómi svo að dómendur heyra um dóm þveran."
Búar Marðar gengu þá að dómi. Taldi einn fram kviðinn en allir guldu
samkvæði og kvað svo að orði: "Mörður Valgarðsson kvaddi oss kviðar þegna
níu en vér stöndum hér nú þegnar fimm en fjórir eru úr ruddir.