Bjarni mælti: "Hér ber vel til. Hér er hann nú Eyjólfur Bölverksson ef þú
vilt finna hann Flosi."

Síðan gengu þeir til móts við Eyjólf og kvöddu hann. Eyjólfur kenndi þegar
Bjarna og tók honum vel. Bjarni tók í hönd Eyjólfi og leiddi hann upp í
Almannagjá. Menn þeirra Bjarna og Flosa gengu eftir. Menn Eyjólfs gengu og
með honum. Þeir báðu þá vera uppi á gjárbakkanum og sjást þaðan um.

Þeir Flosi gengu þar til er þeir koma þar er gatan liggur ofan af hinni efri
gjánni. Flosi kvað þar gott að sitja og mega víða sjá. Þeir settust þá
niður. Þeir voru þar fjórir menn saman og eigi fleiri.

Bjarni mælti þá til Eyjólfs: "Þig erum vér komnir að finna, vinur, því að
vér þurfum mjög þinnar liðveislu í alla staði."

Eyjólfur mælti: "Hér er nú gott mannval á þinginu og mun yður lítið fyrir að
finna þá menn er yður er miklu meiri styrkur að en hér sem eg er."

Bjarni mælti: "Það er ekki svo. Þú hefir marga þá hluti er engi er þér meiri
maður hér á þinginu. Það fyrst að þú ert ættaður svo vel sem allir þeir menn
eru komnir eru frá Ragnari Loðbrók. Hafa og foreldrar þínir jafnan í
stórmælum staðið víða á þingum og heima í héraði og höfðu jafnan hinn meira
hlut. Þykir oss því líklegt til að þú munir vera sigursæll í málunum."

Eyjólfur mælti: "Vel mælir þú Bjarni en lítið ætla eg að eg muni í eiga."

Flosi mælti þá: "Ekki þarf hér að munda til þess er oss er í hug. Liðveislu
viljum vér þig biðja Eyjólfur að þú veitir að málum vorum og gangir að dómum
með oss og takir varnir ef verða og færir fram fyrir vora hönd og veitir oss
um alla hluti á þingi þessu þá er til kunna falla."

Eyjólfur spratt upp reiður og sagði svo að engi maður þarf sér það að ætla
að hafa hann að ginningarfífli eða forhleypi fyrir sér ef hann dregur ekki
til."

"Eg sé nú og," segir hann, "hvað yður hefir til gengið fagurmælis þess er
þér höfðuð við mig."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa