Flosi dvaldist þar þrjár nætur og hvíldi sig og fór þaðan austur til
Geitahellna og svo til Berufjarðar. Þar voru þeir um nótt. Þaðan fóru þeir
austur til Breiðdals í Heydali. Þar bjó Hallbjörn hinn sterki. Hann átti
Oddnýju, systur Sörla Brodd-Helgasonar, og hafði Flosi þar góðar viðtökur.
Hallbjörn spurði margs úr brennunni en Flosi sagði honum frá öllu gjörla.
Hallbjörn spurði hversu langt Flosi ætlaði norður í fjörðuna. Hann kvaðst
fara ætla til Vopnafjarðar. Flosi tók þá fésjóð af belti sér og kvaðst vildu
gefa Hallbirni.

Hann tók við fénu en kveðst þó ekki gjafar eiga að Flosa "en þó vil eg vita
hverju þú vilt að eg launi þér."

"Ekki þarf eg fjár," segir Flosi, "en það vildi eg að þú riðir til þings með
mér og veittir að málum mínum. En þó á eg hvorki að telja til við þig mægðir
né frændsemi."

Hallbjörn mælti: "Því mun eg heita þér að ríða til þings með þér og veita
þér að málum sem eg mundi bróður mínum."

Flosi þakkaði honum.

Þaðan fóru þeir Breiðdalsheiði og svo á Hrafnkelsstaði. Þar bjó Hrafnkell
Þórisson, Hrafnkelssonar, Hrafnssonar. Flosi hafði þar góðar viðtökur og
leitaði hann eftir um þingreið við Hrafnkel og liðveislu. Hrafnkell fór
lengi undan en þó kom þar að hann hét að Þórir son hans mundi ríða við alla
þingmenn þeirra og vera í slíkri liðveislu sem samþingisgoðar hans.

Flosi þakkaði honum og fór í braut og á Bersastaði. Þar bjó Hólmsteinn
Spak-Bersason og tók hann allvel við Flosa. Flosi bað hann liðveislu.
Hólmsteinn kvað hann löngu hafa laun selt um liðveislu.

Þaðan fóru þeir á Valþjófsstaði. Þar bjó Sörli Brodd-Helgason, bróðir Bjarna
Brodd-Helgasonar. Hann átti Þórdísi dóttur Guðmundar hins ríka á
Möðruvöllum. Þeir höfðu það góðar viðtökur. En um morguninn vakti Flosi til
við Sörla að hann mundi ríða til Alþingis með honum og bauð honum fé til.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa