Ásgrímur mælti: "Eg hefi og komið Gissuri hvíta í málið og spurði eg hann að
ráðum hversu með skyldi fara."

"Það er vel," segir Kári, "eða hvað lagði hann til?"

Ásgrímur svarar: "Það lagði hann til að vér skyldum öllu kyrru fyrir halda
til vors en ríða þá austur og búa mál til á hendur Flosa um víg Helga og
kveðja búa heiman og lýsa á þingi brennumálum og kveðja þar hinu sömu búa í
dóm. Eg spurði og Gissur hver sækja skyldi vígsmálið en hann sagði að Mörður
skyldi sækja hvort sem honum þætti gott eða illt "skal hann því þungast af
hafa að honum hafa öll málin verst farið hér til. Kári skal og síreiður
jafnan er hann finnur Mörð og mun hann slíkt til draga og forsjá mín í annan
stað," sagði Gissur."

Kári mælti þá: "Þínum ráðum munum vér fram fara meðan þeirra er kostur og þú
vilt fyrir vera."

Svo er að segja frá Kára að hann mátti ekki sofa um nætur. Ásgrímur vaknaði
eina nótt og heyrði að Kári vakti.

Ásgrímur mælti: "Hvort verður ekki svefnsamt á næturnar?"

Kári kvað þá vísu:

Kemrat, Ullr, um alla,

álmsíma, mér grímu,

beðhlíðar man eg beiði

bauga, svefn á augu,

síð brandviðir brenndu

böðvar nausts á hausti,

eg er að mínu meini

minnigr, Níal inni.

Engra manna gat Kári jafnoft sem Njáls og Skarphéðins. Aldrei ámælti hann
óvinum sínum og aldrei heitaðist hann við þá.


133. kafli

Eina nótt bar svo til að Svínafelli að Flosi lét illa í svefni. Glúmur
Hildisson vakti hann og var lengi áður en hann gæti vakið hann. Flosi mælti
þá: "Kallið mér Ketil úr Mörk."

Ketill kom þangað.

Flosi mælti: "Segja vil eg þér draum minn."

"Það má vel," segir Ketill.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa