"Vissir þú eigi," segir Kári, "hver fyrir varð?"

"Líkt þótti mér vera Þorsteini bróðursyni Flosa," segir Ingjaldur.

"Njót þú heill handa," segir Kári.

Síðan riðu þeir báðir saman til móts við Hjalta Skeggjason og sögðu honum
tíðindin.

Hann tók illa á verkum þessum og kvað hina mestu nauðsyn að ríða eftir þeim
og drepa þá alla. Síðan safnaði hann liði og kveður upp almenning. Ríða þeir
Kári nú við þetta lið til móts við Mörð Valgarðsson og fundust þeir við
Holtsvað. Var Mörður þar fyrir með allmiklu liði. Þá skiptu þeir leitinni.
Riðu sumir hið fremra austur til Seljalandsmúla en sumir upp til
Fljótshlíðar en sumir hið efra um Þríhyrningshálsa og svo ofan í Goðaland.
Þá riðu þeir norður allt til sands en sumir til Fiskivatna og hurfu þar
aftur. Sumir riðu austur í Holt hið fremra og sögðu Þorgeiri tíðindin og
spurðu þeir hann hvort þeir Flosi hefðu þar ekki um riðið.

Þorgeir mælti: "Þann veg er þó að eg sé ekki mikill höfðingi þá mun Flosi þó
annað ráð taka en ríða fyrir augu mér þar sem hann hefir drepið Njál
föðurbróðir minn og sonu hans bræðrunga mína. Og er yður engi annar á ger en
snúa aftur því að þér munuð hafa leitað langt um skammt fram. En segið það
Kára að hann ríði hingað til mín og veri hér með mér ef hann vill. En þó að
hann vilji eigi austur hingað þá mun eg annast um bú hans að Dyrhólmum ef
hann vill. Segið honum og það að eg mun veita honum slíkt er eg má og ríða
til alþingis með honum. Mun hann og vita það að vér bræður erum aðilar um
eftirmálið. Ætlum vér og svo að ganga málinu að sektir skuli verða ef vér
megum ráða og síðan mannhefndir. En eg fer af því hvergi nú með yður að eg
veit að ekki mun gera og munu þeir nú vera sem varastir um sig."

Ríða þeir nú aftur og fundust allir að Hofi og töluðu þar um með sér að þeir
hefðu svívirðing af fengið er þeir höfðu eigi fundið þá. Mörður kvað það
ekki vera. Þá eggjuðu margir að fara skyldi til Fljótshlíðar og taka upp bú
þeirra allra er að þessum verkum höfðu verið en þó var því vikið til atkvæða
Marðar. Hann kvað það vera hið mesta óráð. Þeir spurðu hví hann mælti það.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa