Flosi mælti þá til Sigfússona: "Hvern kost viljið þér nú gera Ingjaldi?
Hvort viljið þér gefa honum upp eða skulum vér nú fara að honum og drepa
hann?"
Þeir svöruðu allir að þeir vildu nú fara að honum og drepa hann.
Þá hljóp Flosi á hest sinn og allir þeir og riðu í braut. Flosi reið fyrir
og stefndi upp til Rangár og upp með ánni. Þá sá hann mann ríða ofan öðrum
megin árinnar. Hann kenndi að þar var Ingjaldur frá Keldum. Flosi kallar á
hann. Ingjaldur nam þá staðar og sneri við fram að ánni.
Flosi mælti til hans: "Þú hefir rofið eiða við oss og hefir þú fyrirgert fé
og fjörvi. Eru hér nú Sigfússynir og vilja gjarna drepa þig. En mér þykir þú
við vant um kominn og mun eg gefa þér líf ef þú vilt selja mér sjálfdæmi."
Ingjaldur svarar: "Fyrr skal eg nú ríða til móts við Kára en selja þér
sjálfdæmi. En eg vil því svara Sigfússonum að eg skal eigi hræddari við þá
en þeir eru við mig."
"Bíð þú þá," segir Flosi, "ef þú ert eigi ragur því að eg skal senda þér
sending."
"Bíða skal eg víst," segir Ingjaldur.
Þorsteinn Kolbeinsson bróðurson Flosa reið fram hjá honum og hafði spjót í
hendi. Hann var röskvastur maður með Flosa einhver og mest verður. Flosi
þreif af honum spjótið og skaut til Ingjalds og kom á hina vinstri hliðina
og í gegnum skjöldinn fyrir neðan mundriðann og klofnaði hann allur í
sundur. En spjótið hljóp í fótinn fyrir ofan knéskelina og svo í
söðulfjölina og nam þar staðar.
Flosi mælti þá til Ingjalds: "Hvort kom á þig?"
"Á mig kom víst," segir Ingjaldur, "og kalla eg þetta skeinu en ekki sár."
Ingjaldur kippti þá spjótinu úr sárinu og mælti til Flosa: "Bíð þú nú ef þú
ert eigi blauður."
Hann skaut þá spjótinu aftur yfir ána. Flosi sér að spjótið stefnir á hann
miðjan. Hopar hann þá hestinum undan en spjótið fló fyrir framan brjóst
Flosa og missti hans. Spjótið kom á Þorstein miðjan og féll hann þegar
dauður af hestinum. Ingjaldur hleypir nú í skóginn og náðu þeir honum ekki.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa