Skarphéðinn gekk þá til Gríms bróður síns. Héldust þeir þá í hendur og tróðu
eldinn. En er þeir komu í miðjan skálann þá féll Grímur dauður niður.
Skarphéðinn gekk þá til enda hússins. Þá varð brestur mikill. Reið þá ofan
öll þekjan. Varð Skarphéðinn þá þar í millum og gaflhlaðsins. Mátti hann
þaðan hvergi hrærast.

Þeir Flosi voru við eldana þar til er morgnað var mjög. Þá kom þar maður
einn ríðandi að þeim.

Flosi spurði þann að nafni en hann nefndist Geirmundur og kveðst vera frændi
Sigfússona "þér hafið mikið stórvirki unnið," segir hann.

Flosi svarar: "Bæði munu menn þetta kalla stórvirki og illvirki. En þó má nú
ekki að hafa."

"Hversu margt hefir hér fyrirmanna látist?" segir Geirmundur.

Flosi svarar: "Hér hefir látist Njáll og Bergþóra og synir þeirra allir,
Þórður Kárason og Kári Sölmundarson, Þórður leysingi. En þá vitum vér
ógjörla um fleiri menn þá er oss eru ókunnari."

Geirmundur mælti: "Dauðan segir þú þann nú er vér höfum hjalað við í
morgun."

"Hver er sá?" segir Flosi.

"Kára Sölmundarson fundum við Bárður búi minn," segir Geirmundur, "og fékk
Bárður honum hest sinn og var brunnið af honum hárið og svo klæðin."

"Hafði hann nokkuð vopna?" segir Flosi.

"Hafði hann sverðið Fjörsváfni," segir Geirmundur, "og var blánaður annar
eggteinninn og sögðum við Bárður að dignað mundi hafa en hann svaraði því að
hann skyldi herða í blóði Sigfússona eða annarra brennumanna."

Flosi mælti: "Hvað sagði hann til Skarphéðins?"

Geirmundur svarar: "Á lífi sagði hann þá Grím báða þá er þeir skildu en þó
kvað hann þá nú mundu dauða."

Flosi mælti: "Sagt hefir þú oss þá sögu er oss mun eigi setugrið bjóða því
að sá maður hefir nú á braut komist er næst gengur Gunnari að Hlíðarenda um
alla hluti. Skuluð þér það nú og hugsa Sigfússynir og aðrir vorir menn að
svo mikið eftirmál mun hér verða um brennu þessa að margan mun það gera
höfuðlausan en sumir munu ganga frá öllu fénu. Grunar mig nú það að engi
yðvar Sigfússona þori að sitja í búi sínu og er það rétt að vonum. Vil eg nú
bjóða yður öllum austur til mín og láta eitt ganga yfir oss alla."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa