Þá tók Kári einn setstokk logandi í hönd sér og hleypur út eftir þvertrénu.
Slöngvir hann þá stokkinum út af þekjunni og féll hann ofan að þeim er úti
voru fyrir. Þeir hljópu þá undan. Þá loguðu klæðin öll á Kára og svo hárið.
Hann steypir sér þá út af þekjunni og stiklar svo með reykinum.

Þá mælti einn maður er þar var næstur: "Hvort hljóp þar maður út af
þekjunni?"

"Fjarri fór það," sagði annar, "og kastaði Skarphéðinn þar eldistokki að
oss."

Síðan grunuðu þeir það ekki.

Kári hljóp til þess er hann kom að læk einum og kastaði sér í ofan og
slökkti á sér eldinn. Þaðan hljóp hann með reykinum í gróf nokkura og hvíldi
sig og er það síðan kölluð Káragróf.


130. kafli

Nú er að segja frá Skarphéðni að hann hleypur út á þvertréið þegar eftir
Kára. En er hann kom þar er mest var brunnið þvertréið þá brast niður undir
honum. Skarphéðinn kom fótum undir sig og réð þegar til í annað sinn og
rennur upp vegginn. Þá reið að honum brúnásinn og hrataði hann inn aftur.

Skarphéðinn mælti þá: "Séð er nú hversu vera vill."

Gekk hann þá fram með hliðvegginum.

Gunnar Lambason hljóp upp á vegginn og sér Skarphéðinn. Hann mælti svo:
"Hvort grætur þú nú Skarphéðinn?"

"Eigi er það," segir Skarphéðinn, "en hitt er satt að súrnar í augunum. En
hvort er sem mér sýnist, hlærð þú?"

"Svo er víst," segir Gunnar, "og hefi eg aldrei fyrr hlegið síðan þú vóst
Þráin á Markarfljóti."

Skarphéðinn mælti: "Þá er þér hér nú minjagripurinn."

Tók hann þá jaxl úr pússi sínum er hann hafði höggvið úr Þráni og kastaði
til Gunnars og kom í augað svo að þegar lá úti á kinninni. Féll Gunnar þá
ofan af þekjunni.


Fred and Grace Hatton
Hawley Pa