Slíkar fortölur hafði hann fyrir þeim og aðrar hraustlegri.

Nú taka öll húsin að loga. Þá gekk Njáll til dyra og mælti: "Hvort er Flosi
svo nær að hann megi heyra mál mitt?"

Flosi kvaðst heyra mega.

Njáll mælti: "Vilt þú nokkuð taka sættum við sonu mína eða leyfa nokkurum
mönnum útgöngu?"

Flosi svarar: "Eigi vil eg taka sættum við sonu þína og skal nú yfir lúka
með oss og eigi frá ganga fyrr en þeir eru allir dauðir. En lofa vil eg
útgöngu konum og börnum og húskörlum."

Njáll gekk þá inn og mælti við fólkið: "Út skulu þeir nú allir ganga er
leyft er. Og gakk þú út Þórhalla Ásgrímsdóttir og allur lýður með þér sá er
lofað er."

Þórhalla mælti: "Annar verður nú skilnaður okkar Helga en eg ætlaði um hríð
en þó skal eg eggja föður minn og bræður að þeir hefni þessa mannskaða er
hér er ger."

Njáll mælti: "Vel mun þér fara því að þú ert góð kona."

Síðan gekk hún út og margt lið með henni.

Ástríður af Djúpárbakka mælti við Helga Njálsson: "Gakk þú út með mér og mun
eg kasta yfir þig kvenskikkju og falda þig með höfuðdúki."

Hann taldist undan fyrst en þó gerði hann þetta fyrir bæn þeirra. Ástríður
vafði höfuðdúki að höfði Helga en Þórhildur kona Skarphéðins lagði yfir hann
skikkjuna og gekk hann út á meðal þeirra. Og þá gekk út Þorgerður
Njálsdóttir og Helga systir hennar og margt annað fólk.

En er Helgi kom út þá mælti Flosi: "Sú er há kona og mikil um herðar er þar
fer. Takið og haldið henni."

En er Helgi heyrði þetta kastaði hann skikkjunni. Hann hafði haft sverð
brugðið undir hendi sér og hjó til manns og kom í skjöldinn og af sporðinn
og fótinn af manninum. Þá kom Flosi að og hjó á hálsinn Helga svo að þegar
tók af höfuðið.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa