"Þetta er ekki þann veg að skilja," segir Skarphéðinn. "Gunnar sóttu heim
þeir höfðingjar er svo voru vel að sér að heldur vildu frá hverfa en brenna
hann inni. En þessir munu þegar sækja oss með eldi er þeir mega eigi annan
veg því að þeir munu allt til vinna að yfir taki við oss. Munu þeir það ætla
sem eigi er ólíklegt að það sé þeirra bani ef oss dregur undan. Eg er og
þess ófús að láta svæla mig inni sem melrakka í greni."
Njáll mælti: "Nú mun sem oftar að þér munuð bera mig ráðum, synir mínir, og
virða mig engis. En þá er þér voruð yngri gerðuð þér það eigi og fór yðvart
ráð þá betur fram."
Helgi mælti: "Gerum vér sem faðir vor vill. Það mun oss best gegna."
"Eigi veit eg það víst," segir Skarphéðinn, "því að hann er nú feigur. En
vel má eg gera það til skaps föður míns að brenna inni með honum því að eg
hræðist ekki dauða minn."
Hann mælti þá við Kára: "Fylgjumst vér vel mágur svo að engi vor skilji við
annan."
"Það hefi eg ætlað," segir Kári, "en ef annars verður auðið þá mun það verða
fram að koma og mun ekki mega við því gera."
"Hefn þú vor," segir Skarphéðinn, "en vér skulum þín ef vér lifum eftir."
Kári kvað svo vera skyldu. Gengu þeir þá inn allir og skipuðust í dyrnar.
Flosi mælti: "Nú eru þeir feigir er þeir hafa inn gengið. Skulum vér nú heim
ganga sem skjótast og skipast sem þykkvast fyrir dyrin og geyma þess að engi
komist í braut hvorki Kári né Njálssynir því að það er vor bani."
Þeir Flosi komu nú heim og skipuðust umhverfis húsin ef nokkurar væru
laundyr á. Flosi gekk framan að húsunum og hans menn. Hróaldur Össurarson
hljóp að þar sem Skarphéðinn var fyrir og lagði til hans. Skarphéðinn hjó
spjótið af skafti fyrir honum og hljóp að honum og hjó til hans og kom öxin
ofan í skjöldinn og bar að Hróaldi þegar allan skjöldinn en hyrnan sú hin
fremri tók andlitið og féll hann á bak aftur og þegar dauður.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa