Síðan fór hún til Bergþórshvols og sagði Njáli þessa viðræðu alla.

Njáll þakkaði henni og kvað hana vel hafa gert "því að honum mundi helst
misgert í vera að fara að mér allra manna."

Hún fór þá heim en Njáll sagði þetta sonum sínum.

Kerling var sú að Bergþórshvoli er Sæunn hét. Hún var fróð að mörgu og
framsýn en þá var hún gömul mjög og kölluðu Njálssynir hana gamalæra er hún
mælti margt en þó gekk það flest eftir. Það var einn dag að hún þreif lurk í
hönd sér og gekk upp um hús eftir og að arfasátu einni er þar stóð. Hún
laust arfasátuna og bað hana aldrei þrífst svo vesöl sem hún var.
Skarphéðinn hló að og spurði hví hún abbaðist upp á arfasátuna.

Kerlingin mælti: "Þessi arfasáta mun vera tekin og kveiktur við eldur þá er
Njáll bóndi er inni brenndur og Bergþóra fóstra mín. Og berið þér hana á
vatn," segir hún, "eða brennið hana upp sem skjótast."

"Eigi munum vér það gera," segir Skarphéðinn, "því að fást mun annað til
eldkveikna ef þess verður auðið þó að hún sé eigi."

Kerling klifaði allt sumarið um arfasátuna að inn skyldi bera en þó fórst
það fyrir ávallt.


125. kafli

Að Reykjum á Skeiðum bjó Runólfur Þorsteinsson. Hildiglúmur hét son hans.
Hann gekk út drottinsdagsnótt þá er tólf vikur voru til vetrar. Hann heyrði
brest mikinn svo að honum þótti skjálfa bæði jörð og himinn. Síðan leit hann
í vesturáttina. Hann þóttist sjá þangað hring og eldslit á og í hringinum
mann á grám hesti. Hann bar skjótt yfir og fór hann hart. Hann hafði logandi
eldbrand í hendi. Hann reið svo nær honum að hann mátti gjörla sjá hann.
Hann var svartur sem bik. Hann kvað vísu þessa með mikilli raust:

Eg ríð hesti

hélugbarða,

úrigtoppa,

ills valdanda.

Eldr er í endum,

eitr er í miðju.

Svo er um Flosa ráð

sem fari kefli

og svo er um Flosa ráð

sem fari kefli.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa