Njáll hafði beðið dómendur að ganga í dóminn. Sigfússynir sækja nú málið.
Þeir nefndu votta og buðu Njálssonum að hlýða til eiðspjalls síns. Síðan
unnu þeir eið. Þá sögðu þeir fram sök. Þá létu þeir bera lýsingarvætti. Þá
buðu þeir búum í setu. Þá buðu þeir til ruðningar um kviðinn.

Þá stóð upp Þórhallur Ásgrímsson og nefndi votta og varði lýriti kviðburðinn
og fann það til að sá hafði lýst sökinni er sannir lagalestir voru á og
sjálfur var útlagi.

"Til hvers mælir þú þetta?" segir Flosi.

Þórhallur svarar: "Mörður Valgarðsson fór til vígs Höskulds með Njálssonum
og særði hann því sári er engi maður var til nefndur þá er vottar voru
nefndir að benjum. Megið þér eigi í móti mæla að ónýtt er málið."


122. kafli

Njáll stóð þá upp og mælti: "Þess bið eg Hall af Síðu og Flosa og alla
Sigfússonu og alla vora menn að þér gangið eigi í braut og heyrið mál mitt."

Þeir gerðu svo.

"Hann mælti þá: "Svo sýnist mér sem mál þetta sé komið í ónýtt efni og er
það að líkindum því að af illum rótum hefir upp runnið. Vil eg yður það
kunnigt gera að eg unni meira Höskuldi en sonum mínum og þá er eg spurði að
hann var veginn þótti mér slökkt hið sætasta ljós augna minn og heldur vildi
eg misst hafa allra sona minna, og lifði hann. Nú bið eg þess Hall af Síðu
og Runólf úr Dal, Gissur hvíta og Einar Þveræing og Hafur hinn spaka að eg
nái að sættast á víg þetta fyrir hönd sona minna og vil eg að geri um þeir
er best eru til fallnir."

Þeir Gissur og Einar og Hafur töluðu langt erindi sínu sinni hver þeirra og
báðu Flosa sættast og hétu honum sinni vináttu í mót. Flosi svaraði þá öllu
vel og hét þó eigi.

Hallur af Síðu mælti þá til Flosa: "Vilt þú nú efna orð þín og veita mér bæn
mína er þú hést að veita mér þá er eg kom utan Þorgrími syni Digur-Ketils
frænda þínum þá er hann hafði vegið Halla hinn rauða?"

Flosi mælti: "Veita vil eg þér mágur því að þú munt þess eins biðja að mín
sæmd sé þá meiri en áður."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa