121. kafli

Annan dag eftir fundust þeir Ásgrímur og Gissur hinn hvíti, Hjalti
Skeggjason og Einar Þveræingur. Þar var þá og Mörður Valgarðsson. Hann hafði
þá látið af höndum sökina og selt í hendur Sigfússonum.

Þá mælti Ásgrímur: "Þig kveð eg að þessu fyrstan, Gissur hinn hvíti, og
Hjalta og Einar, að eg vil segja yður hvers efni í eru. Yður mun það kunnigt
að Mörður hefir sótt málið. En svo er við vaxið að Mörður hefir verið að
vígi Höskulds og sært hann því sári er engi var til nefndur. Sýnist mér sem
það mál muni ónýtt vera fyrir laga sakir."

"Þá viljum vér það fram bera þegar," segir Hjalti.

Þórhallur Ásgrímsson mælti: "Það er ekki ráð að eigi fari þetta leynt allt
þar til er dómar fara út."

"Hverju skiptir það?" segir Hjalti.

Þórhallur svarar: "Ef þeir vita nú það þegar að rangt hafi verið til búið
málið þá mega þeir svo bjarga sökinni að senda þegar mann heim af þingi og
stefna heiman til þings en kveðja búa á þingi og er þá rétt sótt málið."

"Vitur maður ert þú Þórhallur," segja þeir, "og skal þín ráð hafa."

Eftir þetta gekk hver til sinnar búðar.

Sigfússynir lýstu sökum að Lögbergi og spurðu að þingfesti og heimilisfangi
en föstunáttina skyldu fara út dómar til sóknar. Er nú kyrrt þingið þar til.
Margir menn leituðu um sættir með þeim og var Flosi erfiður en aðrir þó
miklu orðfleiri og þótti óvænlega horfa.

Nú kemur að því sem dómar skyldu út fara föstukveldið. Gekk þá allur
þingheimur til dóma. Flosi stóð sunnan að Rangæingadómi og lið hans. Þar var
með honum Hallur af Síðu og Runólfur úr Dal son Úlfs aurgoða og aðrir þeir
sem Flosa höfðu liði heitið. En norðan að Rangæingadómi stóðu þeir Ásgrímur
Elliða-Grímsson og Gissur hvíti, Hjalti Skeggjason og Einar Þveræingur en
Njálssynir voru heima við búð og Kári og Þorleifur krákur og Þorgrímur hinn
mikli. Þeir sátu allir með vopnum og var þeirra flokkur óárennilegur.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa