Þeir gengu nú inn í búðina og í innanverða. Þorkell sat á miðjum palli og
menn hans alla vega út í frá honum. Ásgrímur kvaddi hann. Þorkell tók því
vel.

Ásgrímur mælti til hans: "Til þess erum vér hingað komnir að biðja þig
liðveislu að þú gangir til dóma með oss."

Þorkell mælti: "Hvað munduð þér þurfa minnar liðveislu við þar sem þér
genguð til Guðmundar? Og mundi hann heita yður liði sínu."

"Ekki fengum vér hans liðsinni," segir Ásgrímur.

Þorkell mælti: "Þá þótti Guðmundi óvinsælt vera málið og mun svo og vera því
að slík verk hafa verst verið unnin. Og veit eg hvað þér hefir til gengið
hingað að fara að þú ætlaðir að eg mundi vera óhlutvandari en Guðmundur og
mundi eg vilja fylgja að röngu máli."

Ásgrímur þagnaði þá og þótti þungt fyrir.

Þorkell mælti: "Hver er sá hinn mikli og hinn feiknlegi er fjórir menn ganga
fyrri, fölleitur og skarpleitur, ógæfusamlegur og illmannlegur?"

Skarphéðinn mælti: "Eg heiti Skarphéðinn og er þér skuldlaust að velja mér
hæðiyrði, saklausum manni. Hefir mig aldrei það hent að eg hafi kúgað föður
minn og barist við hann sem þú gerðir við þinn föður. Hefir þú og lítt riðið
til alþingis eða starfað í þingdeildum og mun þér kringra að hafa ljósverk
að búi þínu að Öxará í fásinninu. Er þér og nær að stanga úr tönnum þér
rassgarnarendann merarinnar er þú ást áður en þú riðir til þings og sá
smalamaður þinn og undraðist hann er þú gerðir slíka fúlmennsku."

Þá spratt Þorkell upp af mikilli reiði og þreif sax sitt og mælti: "Þetta
sax fékk eg í Svíþjóðu og drap eg til hinn mesta kappa en síðan vó eg margan
mann með. Og þegar er eg næ til þín skal eg reka það í gegnum þig og skalt
þú það hafa fyrir fáryrði þín."

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa