Þorkell hákur hafði verið utan og framið sig í öðrum löndum. Hann hafði
drepið spellvirkja austur á Jamtaskógi. Síðan fór hann austur í Svíþjóð og
fór til lags með Sörkvi karli og herjuðu þeir í austurveg. En fyrir austan
Bálagarðssíðu átti Þorkell að sækja þeim vatn eitt kveld. Þá mætti hann
finngálkni og varðist því lengi en svo lauk með þeim að hann drap
finngálknið. Þaðan fór hann austur í Aðalsýslu. Þar vó hann að flugdreka.
Síðan fór hann aftur til Svíþjóðar og þaðan til Noregs og síðan út til
Íslands. Og lét hann gera þrekvirki þessi yfir lokhvílu sinni og á stóli
fyrir hásæti sínu. Hann barðist og á Ljósvetningaleið við Guðmund hinn ríka
með bræðrum sínum og höfðu Ljósvetningar sigur. Gerðu þeir síðan illmæli um
Guðmund, Þórir Helgason og Þorkell hákur. Þorkell mælti svo að sá væri engi
á Íslandi að hann mundi eigi ganga til einvígis við eða á hæl hopa fyrir.
Var hann fyrir því kallaður Þorkell hákur að hann eirði hvorki í orðum né
verkum við hvern sem hann átti.


120. kafli

Ásgrímur Elliða-Grímsson og þeir félagar gengu til búðar Þorkels háks.

Ásgrímur mælti þá til félaga sinna: "Þessa búð á Þorkell hákur, kappi
mikill, og væri oss mikið undir að vér fengjum liðsinni hans. Skulum vér hér
til gæta í alla staði því að hann er einlyndur og skapvandur. Vil eg nú
biðja þig Skarphéðinn að þú létir ekki til þín taka um tal vort."

Skarphéðinn glotti við og var svo búinn að hann var í blám kyrtli og í
blárendum brókum og uppháva svarta skúa á fótum. Hann hafði silfurbelti um
sig og öxi þá í hendi er hann hafði drepið Þráin með og hann kallaði
Rimmugýgi og törgubuklara og silkihlað um höfuð og greitt hárið aftur um
eyrun. Hann var allra manna hermannlegastur og kenndu því hann allir ósénn.
Hann gekk sem honum var skipað og hvorki fyrr né síðar.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa