Snorri mælti: "Það að mér þykir þú maður harðlegur og mikilfenglegur en þó
get eg að þrotin sé nú þín hin mesta gæfa og skammt get eg eftir þinnar
ævi."

"Vel er það," segir Skarphéðinn, "því að þá skuld eiga allir að gjalda. En
þó er þér meiri nauðsyn að hefna föður þíns en að spá mér slíkar spár."

"Margir hafa það mælt áður," segir Snorri, "og mun eg ekki við slíku
reiðast."

Eftir það gengu þeir út og fengu þar enga liðveislu. Þaðan fóru þeir til
búðar Skagfirðinga. Þá búð átti Hafur hinn auðgi. Hann var son Þorkels
Eiríkssonar úr Goðdölum, Geirmundarsonar, Hróaldssonar, Eiríkssonar
örðigskeggja er felldi Grjótgarð í Sóknadal í Noregi. Móðir Hafurs hét
Þórunn og var dóttir Ásbjarnar Myrkárskalla Hross-Bjarnarsonar. Þeir
Ásgrímur gengu inn í búðina. Hafur sat í miðri búðinni og talaði við mann.
Ásgrímur gekk að honum og heilsaði á hann. Hafur tók honum vel og bauð honum
að sitja.

Ásgrímur mælti: "Hins vildi eg biðja þig að þú veittir mér lið og mágum
mínum."

Hafur svaraði skjótt og kvaðst ekki mundu taka undir vandræði þeirra "en þó
vil eg spyrja hver sá er hinn fölleiti er fjórir menn ganga fyrr og er svo
illilegur sem genginn sé út úr sjávarhömrum."

Skarphéðinn mælti: "Hirð ekki þú það, mjólki þinn, hver eg er því að eg mun
þora þar fram að ganga er þú situr fyrir og mundi eg allóhræddur þó að
slíkir sveinar væru á götu minni. Er þér og skyldara að sækja Svanlaugu
systur þína er Eydís járnsaxa og þau Steðjakollur tóku í braut úr híbýlum
þínum og þorðir þú ekki að að hafa."

Ásgrímur mælti: "Göngum út. Ekki er hér von liðveislu."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa