Hann svarar: "Skarphéðinn heiti eg og hefir þú séð mig jafnan á þingi en
vera mun eg því vitrari en þú að eg þarf eigi að spyrja þig hvað þú heitir.
Þú heitir Skafti Þóroddsson en fyrr kallaðir þú þig burstakoll þá er þú
hafðir drepið Ketil úr Eldu. Gerðir þú þér þá koll og barst tjöru í höfuð
þér. Síðan keyptir þú að þrælum að rísta upp jarðarmen og skreiðst þú þar
undir um nóttina. Síðan fórst þú til Þórólfs Loftssonar á Eyrum og tók hann
við þér og bar þig út í mjölsekkjum sínum."
Eftir það gengu þeir Ásgrímur út.
Skarphéðinn mælti: "Hvert skulum vér nú ganga?"
"Til búðar Snorra goða," segir Ásgrímur.
Síðan gengu þeir til búðar Snorra. Þar var einn maður úti fyrir búðinni.
Ásgrímur spurði hvort Snorri væri í búð. Sá sagði að hann var þar. Ásgrímur
gekk inn í búðina og þeir allir. Snorri sat á palli. Ásgrímur gekk fyrir
hann og kvaddi hann vel. Snorri tók honum blíðlega og bað hann sitja.
Ásgrímur kveðst þar mundu eiga skamma dvöl "en þó er við þig erindið."
Snorri bað hann segja það.
Ásgrímur mælti: "Eg vildi að þú færir til dóma með mér og veittir mér lið
því að þú ert vitur og framkvæmdarmaður mikill."
"Þungt ganga oss nú málaferlin," segir Snorri, "og draga sig margir mjög
fram í mót oss og erum vér því trauðir að taka vandræði manna í aðra
fjórðunga."
"Vorkunn er það," segir Ásgrímur, "því að þú átt oss ekki varlaunað."
"Veit eg að þú ert góður drengur," segir Snorri, "og vil eg því heita þér að
eg skal hvergi í mót þér vera og eigi veita lið óvinum þínum."
Ásgrímur þakkaði honum.
Snorri mælti: "Hver er sá maður er fjórir ganga fyrri, fölleitur og
skarpleitur og glottir við tönn og hefir öxi reidda um öxl?"
"Héðinn heiti eg," segir hann, "en sumir menn kalla mig Skarphéðinn öllu
nafni eða hvað vilt þú fleira til mín tala?"
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa