Ásgrímur settist á stól fyrir Njál og spurði: "Hversu segir þér hugur um mál
vor?"

Njáll svarar: "Heldur þunglega því að mig uggir að hér muni eigi gæfumenn í
hlut eiga. En það vildi eg vinur að þú sendir eftir öllum þingmönnum þínum
og ríð til þings með mér."

"Það hefi eg ætlað," segir Ásgrímur, "og því mun eg heita þér með að úr
yðrum málum mun eg aldrei ganga meðan eg fæ nokkura menn að með mér."

En allir þökkuðu honum þeir er inni voru og kváðu slíkt drengilega mælt.

Þar voru þeir um nóttina en um daginn eftir kom þar allt lið Ásgríms. Síðan
ríða þeir allir saman þar til er þeir koma á þing upp og voru áður tjaldaðar
búðir þeirra.


119. kafli

Flosi var þá kominn á þing og skipaði alla búð sína. Runólfur skipaði
Dalverjabúð en Mörður Rangæingabúð. Hallur af Síðu var lengst kominn austan
en nær ekki annarra manna. Hallur hafði þó fjölmennt mjög úr sinni sveit og
fór þegar í lið með Flosa og bað hann sáttar og friðar. Hallur var vitur
maður og góðgjarn. Flosi svaraði öllu vel og tók þó lítið af. Hallur spurði
hverjir honum hefðu liðsinni heitið.

Flosi nefndi til Mörð Valgarðsson og kvaðst hafa beðið dóttur hans til handa
Starkaði frænda sínum.

Hallur kvað góðan kost í konunni en segir allt illt við Mörð að eiga "og
munt þú það reyna áður þessu þingi sé lokið."

Síðan hættu þeir talinu.

Það var einnhvern dag að þeir Njáll og Ásgrímur töluðu lengi hljótt.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa