Flosi gekk inn í stofuna og settist niður og kastaði í pallinn undan sér
hásætinu og mælti: "Hvorki er eg konungur né jarl og vil eg ekki láta gera
hásæti undir mér og þarf ekki að spotta mig."

Hildigunnur var nær stödd og mælti: "Það er illa ef þér mislíkar því að
þetta gerðum vér af heilum hug."

Flosi mælti: "Ef þú hefir heilan hug við mig þá mun sjálft leyfa sig, mun og
sjálft lasta sig ef illa er."

Hildigunnur hló að kaldahlátur þann og mælti: "Ekki er enn mark að, nær
munum við gangast verða áður en lýkur."

Hún settist niður hjá Flosa og töluðu þau lengi hljótt.

Síðan voru borð tekin en Flosi tók laugar og lið hans. Flosi hugði að
handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans. Hann kastaði
í bekkinn og vildi eigi þerra sér á og reist af borðdúkinum og þerraði sér
þar á og kastaði til manna sinna. Síðan settist Flosi undir borð og bað menn
sína eta.

Þá kom Hildigunnur í stofuna og gekk fyrir Flosa og greiddi hárið frá augum
sér og grét.

Flosi mælti: "Skapþungt er þér nú frændkona er þú grætur en þó er það vel er
þú grætur góðan mann."

Hún tók þá til orða: "Hvert eftirmæli skal eg nú af þér hafa eða liðveislu?"

Flosi mælti: "Sækja mun eg mál þitt til fullra laga eða veita til þeirra
sætta er góðir menn sjá að vér séum vel sæmdir af í alla staði."

Hún mælti: "Hefna mundi Höskuldur þín ef hann ætti eftir þig að mæla."

Flosi svaraði: "Eigi skortir þig grimmleik og séð er hvað þú vilt."

Hildigunnur mælti: "Minna hafði misgert Arnór Örnólfsson úr Fossárskógum við
Þórð Freysgoða föður þinn og vógu bræður þínir hann á Skaftafellsþingi,
Kolbeinn og Egill." Fred and Grace Hatton
Hawley Pa