Guðmundur var höfðingi mikill. Hann var auðigur maður að fé. Hann hafði
hundrað hjóna. Hann sat yfir virðingu allra höfðingja fyrir norðan
Öxnadalsheiði svo að sumir létu bústaði sína en suma tók hann af lífi en
sumir létu goðorð sín fyrir honum. Og er frá honum komið allt hið mesta
mannaval á landinu: Oddverjar og Sturlungar og Hvammverjar og Fljótamenn og
Ketill biskup og margir hinir bestu menn.
Guðmundur var vinur Ásgríms Elliða-Grímssonar og ætlaði Ásgrímur þar til
liðveislu.
114. kafli
Snorri hét maður er kallaður var goði. Hann bjó að Helgafelli áður Guðrún
Ósvífursdóttir keypti að honum landið, og bjó hún þar til elli en Snorri fór
þá til Hvammsfjarðar og bjó í Sælingsdalstungu. Þorgrímur hét faðir Snorra
og var son Þorsteins þorskabíts, Þórólfssonar Mostrarskeggs, Örnólfssonar
fiskreka. En Ari hinn fróði segir hann vera son Þorgils reyðarsíðu. Þórólfur
Mostrarskegg átti Ósku dóttur Þorsteins hins rauða. Móðir Þorgríms hét Þóra
dóttir Óleifs feilans, Þorsteinssonar hins rauða, Óleifssonar hins hvíta,
Ingjaldssonar Helgasonar, en móðir Ingjalds hét Þóra dóttir Sigurðar orms í
auga, Ragnarssonar loðbrókar. En móðir Snorra goða var Þórdís Súrsdóttir,
systir Gísla.
Snorri var vinur mikill Ásgríms Elliða-Grímssonar og ætlaði hann þar til
liðveislu.
Snorri var vitrastur maður á Íslandi þeirra er eigi voru forspáir. Hann var
góður vinum sínum en grimmur óvinum.
Í þenna tíma var þingreið mikil úr öllum landsfjórðungum og höfðu menn mörg
mál til búin.