"Nú munum vér þurfa til ráða að taka," segir Karlsefni, "því að eg hygg að
þeir muni vitja vor hið þriðja sinni með ófriði og fjölmenni. Nú skulum vér
taka það ráð að tíu menn fari fram á nes þetta og sýni sig þar en annað lið
vort skal fara í skóg og höggva þar rjóður fyrir nautfé vort þá er liðið
kemur framúr skóginum. Vér skulum og taka griðung vorn og láta hann fara
fyrir oss."
En þar var svo háttað er fundur þeirra var ætlaður að vatn var öðru megin en
skógur á annan veg. Nú voru þessi ráð höfð er Karlsefni lagði til.
Nú komu Skrælingjar í þann stað er Karlsefni hafði ætlað til bardaga. Nú var
þar bardagi og féll fjöldi af liði Skrælingja. Einn maður var mikill og vænn
í liði Skrælingja og þótti Karlsefni sem hann mundi vera höfðingi þeirra. Nú
hafði einn þeirra Skrælingja tekið upp öxi eina og leit á um stund og reiddi
að félaga sínum og hjó til hans. Sá féll þegar dauður. Þá tók sá hinn mikli
maður við öxinni og leit á um stund og varp henni síðan á sjóinn sem lengst
mátti hann. En síðan flýja þeir á skóginn svo hver sem fara mátti og lýkur
þar nú þeirra viðskiptum.
Voru þeir Karlsefni þar þann vetur allan. En að vori þá lýsir Karlsefni að
hann vill eigi þar vera lengur og vill fara til Grænlands. Nú búa þeir ferð
sína og höfðu þaðan mörg gæði í vínviði og berjum og skinnavöru. Nú sigla
þeir í haf og komu til Eiríksfjarðar skipi sínu heilu og voru þar um
veturinn.
7.
Nú tekst umræða að nýju um Vínlandsferð því að sú ferð þykir bæði góð til
fjár og virðingar.
Það sama sumar kom skip af Noregi til Grænlands er Karlsefni kom af
Vínlandi.
Því skipi stýrðu bræður tveir, Helgi og Finnbogi, og voru þann vetur á
Grænlandi. Þeir bræður voru íslenskir að kyni og úr Austfjörðum. Þar er nú
til að taka að Freydís Eiríksdóttir gerði ferð sína heiman úr Görðum og fór
til fundar við þá bræður Helga og Finnboga og beiddi þá að þeir færu til
Vínlands með farkost sinn og hafa helming gæða allra við hana, þeirra er þar
fengjust. Nú játtu þeir því.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa