Þorfinnur karlsefni var stórauðigur að fé og var um veturinn í Brattahlíð
með Leifi Eiríkssyni. Brátt felldi hann hug til Guðríðar og bað hennar en
hún veik til Leifs svörum fyrir sig. Síðan var hún honum föstnuð og gert
brúðhlaup þeirra á þeim vetri.

Hin sama var umræða á Vínlandsför sem fyrr og fýstu menn Karlsefni mjög
þeirrar ferðar, bæði Guðríður og aðrir menn. Nú var ráðin ferð hans og réð
hann sér skipverja, sex tigi karla og konur fimm.

Þann máldaga gerðu þeir Karlsefni og hásetar hans að jöfnum höndum skyldu
þeir hafa allt það er þeir fengju til gæða. Þeir höfðu með sér alls konar
fénað því að þeir ætluðu að byggja landið ef þeir mættu það. Karlsefni bað
Leif húsa á Vínlandi en hann kveðst ljá mundu húsin en gefa eigi.

Síðan héldu þeir í haf skipinu og komu til Leifsbúða með heilu og höldnu og
báru þar upp húðföt sín. Þeim bar brátt í hendur mikil föng og góð því að
reyður var þar upp rekin, bæði mikil og góð, fóru til síðan og skáru
hvalinn. Skorti þá eigi mat. Fénaður gekk þar á land upp en það var brátt að
graðfé varð úrigt og gerði mikið um sig. Þeir höfðu haft með sér griðung
einn.

Karlsefni lét fella viðu og telgja til skips síns og lagði viðinn á bjarg
eitt til þurrkanar. Þeir höfðu öll gæði af landkostum þeim er þar voru, bæði
af vínberjum og alls konar veiðum og gæðum.

Eftir þann vetur hinn fyrsta kom sumar. Þá urðu þeir varir við Skrælingja og
fór þar úr skógi fram mikill flokkur manna. Þar var nær nautfé þeirra en
graðungur tók að belja og gjalla ákaflega hátt. En það hræddust Skrælingjar
og lögðu undan með byrðar sínar en það var grávara og safali og alls konar
skinnavara og snúa til bæjar Karlsefnis og vildu þar inn í húsin en
Karlsefni lét verja dyrnar. Hvorigir skildu annars mál.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa