5.
Það hafði gerst til tíðinda meðan á Grænlandi að Þorsteinn í Eiríksfirði
hafði kvongast og fengið Guðríðar Þorbjarnardóttur er átt hafði Þórir
austmaður er fyrr var frá sagt.

Nú fýstist Þorsteinn Eiríksson að fara til Vínlands eftir líki Þorvalds
bróður síns og bjó skip hið sama og valdi hann lið að afli og vexti og hafði
með sér hálfan þriðja tug manna og Guðríði konu sína og sigla í haf þegar
þau eru búin og úr landsýn. Þau velkti úti allt sumarið og vissu eigi hvar
þau fóru.

Og er vika var af vetri þá tóku þeir land í Lýsufirði á Grænlandi í hinni
vestri byggð. Þorsteinn leitaði þeim um vistir og fékk vistir öllum hásetum
sínum. En hann var vistlaus og kona hans. Nú voru þau eftir að skipi tvö
nokkurar nætur. Þá var enn ung kristni á Grænlandi.

Það var einn dag að menn komu að tjaldi þeirra snemma. Sá spurði er fyrir
þeim var hvað manna væri í tjaldinu.

Þorsteinn svarar: "Tveir menn," segir hann, "eða hver spyr að?"

"Þorsteinn heiti eg og er eg kallaður Þorsteinn svartur. En það er erindi
mitt hingað að eg vil bjóða ykkur báðum hjónum til vistar til mín."

Þorsteinn kveðst vilja hafa umræði konu sinnar en hún bað hann ráða og nú
játar hann þessu.

"Þá mun eg koma eftir ykkur á morgun með eyki því að mig skortir ekki til að
veita ykkur vist en fásinni er mikið með mér að vera því að tvö erum við þar
hjón því að eg er einþykkur mjög. Annan sið hefi eg og en þér hafið og ætla
eg þann þó betra er þér hafið."

Nú kom hann eftir þeim um morguninn með eyki og fóru þau með Þorsteini
svarta til vistar og veitti hann þeim vel.

Guðríður var sköruleg kona að sjá og vitur kona og kunni vel að vera með
ókunnugum mönnum.

Það var snemma vetrar að sótt kom í lið Þorsteins Eiríkssonar og önduðust
þar margir förunautar.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa