Eftir það sló á þá höfga svo miklum að þeir máttu eigi vöku halda og sofna
þeir allir. Þá kom kall yfir þá svo að þeir vöknuðu allir.
Svo segir kallið: "Vaki þú Þorvaldur og allt föruneyti þitt ef þú vilt líf
þitt hafa og far þú á skip þitt og allir menn þínir og farið frá landi sem
skjótast."
Þá fór innan eftir firðinum ótal húðkeipa og lögðu að þeim.
Þorvaldur mælti þá: "Vér skulum færa út á borð vígfleka og verjast sem best
en vega lítt í mót."
Svo gera þeir en Skrælingjar skutu á þá um stund en flýja síðan í burt sem
ákafast hver sem mátti.
Þá spurði Þorvaldur menn sína ef þeir væru nokkuð sárir. Þeir kváðust eigi
sárir vera.
"Ég hef fengið sár undir hendi", segir hann, "og fló ör milli skipborðsins
og skjaldarins undir hönd mér og er hér örin, en mun mig þetta til bana
leiða. Nú ræð ég að þér búið ferð yðra sem fljótast aftur á leið en þér
skuluð færa mig á höfða þann er mér þótti byggilegast vera. Má það vera að
mér hafi satt á munn komið að eg muni þar búa á um stund. Þar skuluð þér mig
grafa og setja krossa að höfði mér og að fótum og kallið það Krossanes
jafnan síðan."
Grænland var þá kristnað en þó andaðist Eiríkur rauði fyrir kristni.
Nú andaðist Þorvaldur en þeir gerðu allt eftir því sem hann hafði mælt og
fóru síðan og hittu þar förunauta sína og sögðu hvorir öðrum slík tíðindi
sem vissu og bjuggu þar þann vetur og fengu sér vínber og vínvið til skips
síns.
Nú búast þeir þaðan um vorið eftir til Grænlands og komu skipi sínu í
Eiríksfjörð og kunnu Leifi að segja mikil tíðindi.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa