4.
Nú bjóst Þorvaldur til þeirrar ferðar með þrjá tigi manna með umráði Leifs
bróður síns. Síðan bjuggu þeir skip sitt og héldu í haf og er engi frásögn
um ferð þeirra fyrr en þeir koma til Vínlands til Leifsbúða og bjuggu þar um
skip sitt og sátu um kyrrt þann vetur og veiddu fiska til matar sér.
En um vorið mælti Þorvaldur að þeir skyldu búa skip sitt og skyldi
eftirbátur skipsins og nokkurir menn með fara fyrir vestan landið og kanna
þar um sumarið. Þeim sýndist landið fagurt og skógótt, og skammt milli
skógar og sjóvar, og hvítir sandar. Þar var eyjótt mjög og grunnsævi mikið.
Þeir fundu hvergi mannavistir né dýra en í eyju einni vestarlega fundu þeir
kornhjálm af tré. Eigi fundu þeir fleiri mannaverk og fóru aftur og komu til
Leifsbúða að hausti.
En að sumri öðru fór Þorvaldur fyrir austan með kaupskipið og hið nyrðra
fyrir landið. Þá gerði að þeim veður hvasst fyrir andnesi einu og rak þá þar
upp og brutu kjölinn undan skipinu og höfðu þar langa dvöl og bættu skip
sitt.
Þá mælti Þorvaldur við förunauta sína: "Nú vil eg að vér reisum hér upp
kjölinn á nesinu og köllum Kjalarnes."
Og svo gerðu þeir.
Síðan sigla þeir þaðan í braut og austur fyrir landið og inn í fjarðarkjafta
þá er þar voru næstir og að höfða þeim er þar gekk fram. Hann var allur
skógi vaxin. Þá leggja þeir fram skip sitt í lægi og skjóta bryggjum á land
og gengur Þorvaldur þar á land upp með alla förunauta sína.
Hann mælti þá: "Hér er fagurt og hér vildi eg bæ minn reisa."
Ganga síðan til skips og sjá á sandinum inn frá höfðanum þrjár hæðir og fóru
til þangað og sjá þar húðkeipa þrjá og þrjá menn undir hverjum. Þá skiptu
þeir liði sínu og höfðu hendur á þeim öllum nema einn komst í burt með keip
sinn. Þeir drepa hina átta og ganga síðan aftur á höfðann og sjást þar um og
sjá inn í fjörðinn hæðir nokkurar og ætluðu þeir það vera byggðir.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa