"Eg veit eigi, "segir Leifur, "hvort eg sé skip eða sker."
Nú sjá þeir og kváðu sker vera. Hann sá því framar en þeir að hann sá menn í
skerinu.
"Nú vil eg að vér beitum undir veðrið, "segir Leifur, "svo að vér náum til
þeirra ef menn eru þurftugir að ná vorum fundi og er nauðsyn á að duga þeim.
En með því að þeir séu eigi friðmenn þá eigum vér allan kost undir oss en
þeir ekki undir sér."
Nú sækja þeir undir skerið og lægðu segl sitt, köstuðu akkeri og skutu
litlum báti öðrum er þeir höfðu haft með sér. Þá spurði Leifur hver þar réði
fyrir liði.
Sá kveðst Þórir heita og vera norænn maður að kyni "eða hvert er þitt nafn?"
Leifur segir til sín.
"Ertu son Eiríks rauða úr Brattahlíð?" segir hann.
Leifur kvað svo vera: "Nú vil eg, "segir Leifur, "bjóða yður öllum á mitt
skip og fémunum þeim er skipið má við taka."
Þeir þágu þann kost og sigldu síðan til Eiríksfjarðar með þeim farmi þar til
er þeir komu til Brattahlíðar, báru farminn af skipi. Síðan bauð Leifur Þóri
til vistar með sér og Guðríði konu hans og þrem mönnum öðrum en fékk vistir
öðrum hásetum, bæði Þóris og sínum félögum. Leifur tók fimmtán menn úr
skerinu. Hann var síðan kallaður Leifur hinn heppni. Leifi varð nú bæði gott
til fjár og mannvirðingar.
Þann vetur kom sótt mikil í lið Þóris og andaðist hann Þórir og mikill hluti
liðs hans. Þann vetur andaðist og Eiríkur rauði.
Nú var umræða mikil um Vínlandsför Leifs og þótti Þorvaldi bróður hans of
óvíða kannað hafa verið landið.
Þá mælti Leifur við Þorvald: "Þú skalt fara með skip mitt bróðir ef þú vilt
til Vínlands og vil eg þó að skipið fari áður eftir viði þeim er Þórir átti
í skerinu."