3.
Á einhverju kveldi bar það til tíðinda að manns var vant af liði þeirra og
var það Tyrkir suðurmaður. Leifur kunni því stórilla því að Tyrkir hafði
lengi verið með þeim feðgum og elskað mjög Leif í barnæsku. Taldi Leifur nú
mjög á hendur förunautum sínum og bjóst til ferðar að leita hans og tólf
menn með honum.

En er þeir voru skammt komnir frá skála þá gekk Tyrkir í mót þeim og var
honum vel fagnað.

Leifur fann það brátt að fóstra hans var skapgott. Hann var brattleitur og
lauseygur, smáskitlegur í andliti, lítill vexti og vesallegur en
íþróttamaður á alls konar hagleik.

Þá mælti Leifur til hans: "Hví varstu svo seinn fóstri minn og fráskili
föruneytinu?"

Hann talaði þá fyrst lengi á þýsku og skaut marga vega augunum og gretti
sig. En þeir skildu eigi hvað er hann sagði.

Hann mælti þá á norrænu er stund leið: "Eg var genginn eigi miklu lengra en
þið. Kann eg nokkur nýnæmi að að segja. Eg fann vínvið og vínber."

"Mun það satt fóstri minn?" kvað Leifur.

"Að vísu er það satt," kvað hann, "því að eg var þar fæddur er hvorki skorti
vínvið né vínber."

Nú sváfu þeir af þá nótt en um morguninn mælti Leifur við háseta sína: "Nú
skal hafa tvennar sýslur fram og skal sinn dag hvort, lesa vínber eða höggva
vínvið og fella mörkina svo að það verði farmur til skips míns."

Og þetta var ráðs tekið.

Svo er sagt að eftirbátur þeirra var fylltur af vínberjum.

Nú var hogginn farmur á skipið.

Og er vorar þá bjuggust þeir og sigldu burt og gaf Leifur nafn landinu eftir
landkostum og kallaði Vínland, sigla nú síðan í haf og gaf þeim vel byri þar
til er þeir sáu Grænland og fjöll undir jöklum.

Þá tók einn maður til máls og mælti við Leif: "Hví stýrir þú svo mjög undir
veður skipinu?"

Leifur svaraði: "Eg hygg að stjórn minni en þó enn að fleira. Eða hvað sjáið
þér til tíðinda?"
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa