Síðan fóru þeir til skips síns og sigldu í sund það er lá milli eyjarinnar
og ness þess er norður gekk af landinu, stefndu í vesturátt fyrir nesið. Þar
var grunnsævi mikið að fjöru sjóvar og stóð þá uppi skip þeirra og var þá
langt til sjóvar að sjá frá skipinu.

En þeim var svo mikil forvitni á að fara til landsins að þeir nenntu eigi
þess að bíða að sjór félli undir skip þeirra og runnu til lands þar er á ein
féll úr vatni einu. En þegar sjór féll undir skip þeirra þá tóku þeir bátinn
og réru til skipsins og fluttu það upp í ána, síðan í vatnið og köstuðu þar
akkerum og báru af skipi húðföt sín og gerðu þar búðir, tóku það ráð síðan
að búast þar um þann vetur og gerðu þar hús mikil.

Hvorki skorti þar lax í ánni né í vatninu og stærra lax en þeir hefðu fyrr
séð.

Þar var svo góður landskostur, að því er þeim sýndist, að þar mundi engi
fénaður fóður þurfa á vetrum. Þar komu engi frost á vetrum og lítt rénuðu
þar grös. Meira var þar jafndægri en á Grænlandi eða Íslandi. Sól hafði þar
eyktarstað og dagmálastað um skammdegi.

En er þeir höfðu lokið húsgerð sinni þá mælti Leifur við föruneyti sitt: "Nú
vil eg skipta láta liði voru í tvo staði og vil eg kanna láta landið og skal
helmingur liðs vera við skála heima en annar helmingur skal kanna landið og
fara eigi lengra en þeir komi heim að kveldi og skiljist eigi."

Nú gerðu þeir svo um stund. Leifur gerði ýmist, að hann fór með þeim eða var
heima að skála.

Leifur var mikill maður og sterkur, manna skörulegastur að sjá, vitur maður
og góður hófsmaður um alla hluti.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa