Þeir spyrja þá ef Bjarni vildi að landi láta þar en hann kvaðst eigi það
vilja "því að mér líst þetta land ógagnvænlegt."

Nú lögðu þeir eigi segl sitt, halda með landinu fram og sáu að það var
eyland, settu enn stafn við því landi og héldu í haf hinn sama byr. En veður
óx í hönd og bað Bjarni þá svipta og eigi sigla meira en bæði dygði vel
skipi þeirra og reiða, sigldu nú fjögur dægur.

Þá sáu þeir land hið fjórða. Þá spurðu þeir Bjarna hvort hann ætlaði þetta
vera Grænland eða eigi.

Bjarni svarar: "Þetta er líkast því er mér er sagt frá Grænlandi og hér
munum vér að landi halda."

Svo gera þeir og taka land undir einhverju nesi að kveldi dags og var þar
bátur á nesinu. En þar bjó Herjúlfur faðir Bjarna á því nesi og af því hefir
nesið nafn tekið og er síðan kallað Herjúlfsnes. Fór Bjarni nú til föður
síns og hættir nú siglingu og er með föður sínum meðan Herjúlfur lifði. Og
síðan bjó hann þar eftir föður sinn.


--------------------------------------------------------------------------------

2.
Það er nú þessu næst að Bjarni Herjúlfsson kom utan af Grænlandi á fund
Eiríks jarls og tók jarl við honum vel. Sagði Bjarni frá ferðum sínum er
hann hafði lönd séð og þótti mönnum hann verið hafa óforvitinn er hann hafði
ekki að segja af þeim löndum og fékk hann af því nokkuð ámæli.

Bjarni gerðist hirðmaður jarls og fór út til Grænlands um sumarið eftir. Var
nú mikil umræða um landaleitan.

Leifur son Eiríks rauða úr Brattahlíð fór á fund Bjarna Herjúlfssonar og
keypti skip að honum og réð til háseta svo að þeir voru hálfur fjórði tugur
manna saman. Leifur bað föður sinn Eirík að hann mundi enn fyrir vera
förinni.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa