Eftir það gekk hann út. En er hann kom í búðardyrnar snýst hann innar eftir
búðinni. Þá lukust upp augu hans.

Þá mælti hann: "Lofaður sért þú guð, drottinn minn. Sé eg nú hvað þú vilt."

Eftir það hleypur hann innar eftir búðinni þar til er hann kemur fyrir
Lýting og höggur með öxi í höfuð honum svo að hún stóð á hamri og kippir að
sér öxinni. Lýtingur fellur áfram og var þegar dauður. Ámundi gengur út í
búðardyrnar. Og er hann kom í þau hin sömu spor sem augu hans höfðu upp
lokist þá lukust nú aftur og var hann alla ævi blindur síðan.

Eftir það lætur hann fylgja sér til Njáls og sona hans. Hann segir þeim víg
Lýtings.

"Ekki má saka þig um þetta," segir Njáll, "því að slíkt er mjög ákveðið en
viðvörunarvert ef slíkir atburðir verða að stinga eigi af stokki við þá er
svo nær standa."

Síðan bauð Njáll sætt frændum Lýtings. Höskuldur Hvítanesgoði átti hlut að
við frændur Lýtings að þeir tækju sættum og var þá lagið mál í gerð og féllu
hálfar bætur niður fyrir sakastaði þá er Ámundi þótti á eiga. Eftir það
gengu menn til tryggða og veittu frændur Lýtings Ámunda tryggðir.

Menn riðu heim af þingi og er nú kyrrt lengi.


107. kafli

Valgarður hinn grái kom þetta sumar út. Hann var þá heiðinn. Hann fór til
Hofs til Marðar sonar síns og var þar um veturinn.

Hann mælti til Marðar: "Riðið hefi eg hér um byggðina víða og þykir mér eigi
mega kenna að hin sama sé. Kom eg á Hvítanes og sá eg þar búðartóftir margar
og umbrot mikil. Og kom eg á Þingskálaþing og sá eg þar ofan brotna búð vora
alla eða hví sæta firn slík?"