Eftir það ríða þeir á þing upp og hafði svo nær að frændur Þorvalds mundu
ganga að þeim. Veittu þeir Njáll og Austfirðingar Þangbrandi. Hjalti
Skeggjason kvað kviðling þenna:

Spari eg eigi goð geyja.

Grey þykir mér Freyja.

Æ mun annað tveggja

Óðinn grey eða Freyja.

Hjalti fór utan um sumarið og Gissur hvíti. En skip Þangbrands braut austur
við Búlandsnes og hét skipið Vísundur.

Þangbrandur fór allt vestur um sveitir.

Steinunn kom í mót honum, móðir Skáld-Refs. Hún boðaði Þangbrandi heiðni og
taldi lengi fyrir honum. Þangbrandur þagði meðan hún talaði en talaði lengi
eftir og sneri því öllu er hún hafði mælt í villu.

"Hefir þú heyrt það," sagði hún, "er Þór bauð Kristi á hólm og þorði Kristur
eigi að berjast við Þór?"

"Heyrt hefi eg," segir Þangbrandur, "að Þór var ekki nema mold og aska ef
guð vildi eigi að hann lifði."

"Veist þú," segir hún, "hver brotið hefir skip þitt?"

"Hvað segir þú til?" segir hann.

"Það mun eg segja þér," segir hún:

Braut fyrir bjöllu gæti,

bönd ráku val strandar,

mögfellandi mellu,

mástalls, Vísund allan.

Hlífðit Kristr, þá er kneyfði

knörr, málmfeta varra.

Lítt ætla eg að guð gætti

Gylfa hreins að einu.