"Og ætla eg ekki," sagði Úlfur, "að vera ginningarfífl hans. En gæti hann að
honum vefjist eigi tungan um höfuð."
Og eftir það fór sendimaður aftur til Þorvalds hins veila og sagði honum orð
Úlfs. Þorvaldur hafði margt manna um sig og hafði það við orð að sitja fyrir
þeim á Bláskógaheiði.
Þeir Þangbrandur og Guðleifur riðu úr Haukadal. Þeir mættu manni einum er
reið í mót þeim.
Sjá spurði að Guðleifi og er hann fann hann mælti hann: "Njóta skalt þú
Þorgils bróður þíns á Reykjahólum að eg vil gera þér njósn að þeir hafa
margar fyrirsátir og það með að Þorvaldur hinn veili er með flokk sinn við
Hestlæk í Grímsnesi."
"Ekki skulum vér ríða að síður," segir Guðleifur, "til fundar við hann."
Og sneru þeir síðan ofan til Hestlækjar. Þorvaldur var þá kominn yfir
lækinn.
Guðleifur mælti til Þangbrands: "Hér er nú Þorvaldur og hlaupum nú að
honum."
Þangbrandur skaut spjóti í gegnum Þorvald en Guðleifur hjó á öxlina og frá
ofan höndina og var það hans bani.