Þá er Þangbrandur reið austan þá brast í sundur jörðin undir hesti hans en
hann hljóp af hestinum og komst upp á bakkann en jörðin svalg hestinn með
öllum reiðingi og sáu þeir hann aldrei síðan. Þá lofaði Þangbrandur guð.


102. kafli

Guðleifur leitar nú Galdra-Héðins og finnur hann á heiðinni og eltir hann
ofan að Kerlingardalsá og komst í skotfæri við hann og skýtur til hans
spjóti og í gegnum hann.

Þaðan fóru þeir til Dyrhólma og áttu þar fund og boðaði Þangbrandur þar trú
og kristnaði þar Ingjald son Þorkels Háeyjartyrðils.

Þaðan fóru þeir til Fljótshlíðar og boðuðu þar trú. Þar mælti mest í mót
Veturliði skáld og Ari son hans og fyrir það vógu þeir Veturliða. Og er þar
um kveðin vísa þessi:

Ryðfjónar gekk reynir

randa suðr á landi

beðs í bæna smiðju

Baldrs sigtólum halda.

Siðreynir lét síðan

snjallr morðhamar gjalla

hauðrs í hattar steðja

hjaldrs Vetrliða skaldi.

Þaðan fór Þangbrandur til Bergþórshvols og tók Njáll við trú og öll hjú
hans. En Mörður Valgarðsson gekk mest í móti. Þeir fóru þaðan út yfir ár.
Þeir fóru í Haukadal og skírðu þar Hall og var hann þá þrevetur.

Þaðan fóru þeir til Grímsness. Þar efldi flokk í móti þeim Þorvaldur hinn
veili og sendi orð Úlfi Uggasyni að hann skyldi fara að Þangbrandi og drepa
hann og kvað til vísu þessa:

Yggs bjálfa mun eg Úlfi

Endils um boð senda,

mér er við stála stýri

stugglaust, syni Ugga,

að gnýskúta Geitis

goðvarg fyrir argan,

þann er við rögn um regnir,

reki hann en eg annan.