Njáll mælti: "Lýtingur mun þykjast mikið afhroð goldið hafa í láti bræðra
sinna. En ef eg geri nokkurn kost á þá mun eg þín láta að njóta og mun eg þó
það skilja fyrir sættina að bræður Lýtings skulu óhelgir fallið hafa.
Lýtingur skal og ekki hafa fyrir sár sín en bæta Höskuld fullum bótum."

"Það vil eg," segir Höskuldur, "að þú einn dæmir."

Njáll svarar: "Það mun eg nú gera sem þú vilt."

"Vilt þú nokkuð," segir Höskuldur, "að synir þínir séu við?"

Njáll svarar: "Ekki mun þá nær sættinni en áður en halda munu þeir þá sætt
er eg geri."

Þá mælti Höskuldur: "Lúkum við þá málinu og sel þú Lýtingi grið fyrir sonu
þína."

"Svo skal vera," segir Njáll.

"Það vil eg," segir Njáll, "að Lýtingur gjaldi tvö hundruð silfurs fyrir víg
Höskulds en búi á Sámsstöðum og þykir mér þó ráðlegra að hann selji land
sitt og ráðist í braut. En eigi fyrir því, ekki mun eg rjúfa tryggðir á
honum né synir mínir. En þó þykir mér vera mega að nokkur rísi sá upp í
sveit að honum sé viðsjávert. En ef svo þykir sem eg geri hann héraðssekan
þá leyfi eg að hann sé hér í sveit en hann ábyrgist mestu til."

Síðan fór Höskuldur heim.

Þeir vöknuðu Njálssynir og spurðu föður sinn hvað komið hefði en hann sagði
þeim að Höskuldur var þar, fóstri hans.

"Hann mundi biðja fyrir Lýtingi," segir Skarphéðinn.

"Svo var," segir Njáll.

"Það var illa," segir Grímur.

"Ekki mundi Höskuldur hafa skotið skildi fyrir hann," segir Njáll, "ef þú
hefðir drepið hann þá er þér var ætlað."

"Teljum vér ekki á föður vorn," segir Skarphéðinn.

Nú er að segja frá því að sætt þessi helst með þeim síðan.


100. kafli

Höfðingjaskipti varð í Noregi. Hákon jarl var liðinn undir lok en kominn í
staðinn Ólafur Tryggvason. Urðu þau örlög Hákonar jarls að Karkur þræll skar
hann á háls á Rimul í Gaulardal. Það spurðist með tíðindum þessum að
siðaskipti var orðið í Noregi. Og höfðu þeir kastað hinum forna átrúnaði en
Ólafur konungur hafði kristnað Vesturlönd, Hjaltland og Orkneyjar og
Færeyjar.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa