"Þau mál skulu hér í koma," segir Njáll, "um alla þingsafglöpun ef menn bera
ljúgvitni eða ljúgkviðu. Hér skulu og í koma vefangsmál öll þau er menn
vefengja í fjórðungsdómi og skal þeim stefna til fimmtardóms. Svo og ef menn
bjóða fé eða taka fé til liðs sér og innihafnir þræla eða skuldarmanna. Í
þessum dómi skulu vera allir hinir styrkjustu eiðar og fylgja tveir menn
hverjum eiði er það skulu leggja undir þegnskap sinn er hinir sverja. Svo
skal og ef annar fer með rétt mál en annar með rangt, þá skal eftir þeim
dæma er rétt fara að sókn. Hér skal og sækja hvert mál sem í fjóðungsdómi
utan það er nefndar eru fernar tylftir í fimmtardóm, þá skal sækjandi nefna
sex menn úr dómi en verjandi aðra sex. En ef hann vill eigi úr nefna þá skal
sækjandi nefna þá úr sem hina sem verjandi átti. En ef sækjandi nefnir eigi
úr þá er ónýtt málið því að þrennar tylftir skulu um dæma. Vér skulum og
hafa þá lögréttuskipun að þeir er sitja á miðjum pöllum skulu réttir að ráða
fyrir lofum og lögum og skal þá velja til þess er vitrastir eru og best að
sér. Þar skal og vera fimmtardómur. En ef þeir verða eigi á sáttir er í
lögréttu sitja hvað þeir vilja lofa eða í lög leiða, þá skulu þeir ryðja
lögréttu til og skal ráða afl með þeim. En ef sá er nokkur fyrir utan
lögréttu að eigi nái inn að ganga eða þykist borinn vera máli þá skal hann
verja lýriti svo að heyri í lögréttu og hefir hann þá ónýtt fyrir þeim öll
lof þeirra og allt það er þeir mæltu til lögskila og varði lýriti."
Eftir það leiddi Skafti Þóroddsson í lög fimmtardóm og allt þetta er nú var
talið. Eftir það gengu menn til Lögbergs. Tóku menn þá upp ný goðorð. Í
Norðlendingafjórðungi voru þessi ný goðorð: Melmannagoðorð í Miðfirði og
Laufæsingagoðorð í Eyjafirði.