Litlu síðar kvaddi Njáll menn til ferðar með sér. Fóru þeir Sigfússynir og
synir Njáls allir og Kári Sölmundarson. Þeir ríða austur til Svínafells. Fá
þeir þar góðar viðtökur.

Um daginn eftir ganga þeir Njáll of Flosi á tal.

Þar koma niður ræður Njáls að hann segir svo: "Það er erindi mitt hingað að
vér förum bónorðsför og mælum til mægða við þig Flosi en til eiginorðs við
Hildigunni bróðurdóttur þína."

"Fyrir hvers hönd?" segir Flosi.

"Fyrir hönd Höskulds Þráinssonar fóstra míns," segir Njáll.

"Vel er slíkt stofnað," segir Flosi, "en þó hafið þér mikið í hættu hvorir
við aðra eða hvað segir þú frá Höskuldi?"

"Gott má eg frá honum segja," segir Njáll, "og skal eg svo fé til leggja að
yður þyki sæmilega ef þér viljið þetta mál að álitum gera."

"Kalla munum vér á hana," segir Flosi, "og vita hversu henni lítist
maðurinn."

Var þá sent eftir henni og kom hún þangað.

Flosi segir henni bónorðið.

Hún kvaðst vera kona skapstór "og veit eg eigi hversu mér er hent við það er
þar eru svo menn fyrir en það þó eigi síður að sjá maður hefir ekki
mannaforráð. Og hefir þú það mælt að þú mundir eigi gifta mig goðorðslausum
manni."

"Það er ærið eitt til," segir Flosi, "ef þú vilt eigi giftast Höskuldi að þá
mun eg engan kost á gera."

"Það mæli eg eigi," segir hún, "að eg vilji eigi giftast Höskuldi ef þeir fá
honum mannaforráð. En ellegar mun eg engan kost á gera."

Njáll mælti: "Þá vil eg bíða láta mín um þetta mál þrjá vetur."

Flosi svaraði að svo skyldi vera.

"Þann hlut vildi eg til skilja," segir Hildigunnur, "ef þessi ráð tækjust að
við værum austur hér."

Njáll kvaðst það vilja skilja undir Höskuld en Höskuldur kvaðst mörgum vel
trúa en engum betur en fóstra sínum.

Nú ríða þeir austan.