Flosi bjó að Svínafelli og var höfðingi mikill. Hann var mikill vexti og
styrkur, manna kappsamastur.

Bróðir hans hét Starkaður. Hann var eigi sammæðra við Flosa. Móðir Starkaðar
var Þraslaug dóttir Þorsteins tittlings Geirleifssonar en móðir Þraslaugar
var Unnur dóttir Eyvindar karfa landnámamanns og systir Móðólfs hins spaka.
Bræður Flosa voru þeir Þorgeir og Steinn, Kolbeinn og Egill.

Hildigunnur hét dóttir Starkaðar bróður Flosa. Hún var skörungur mikill og
kvenna fríðust sýnum. Hún var svo hög að fár konur voru jafn hagar. Hún var
allra kvenna grimmust og skaphörðust en drengur góður þar sem vel skyldi
vera.


96. kafli

Hallur hét maður er kallaður var Síðu-Hallur. Hann var Þorsteinsson
Böðvarssonar. Móðir Halls hét Þórdís og var Össurardóttir, Hróðlaugssonar,
Rögnvaldssonar jarls af Mæri, Eysteinssonar glumru. Hallur átti Jóreiði
Þiðrandadóttur hins spaka, Ketilssonar þryms, Þórissonar þiðranda úr
Veradal. Bróðir Jóreiðar var Ketill þrymur í Njarðvík og Þorvaldur faðir
Helga Droplaugarsonar. Hallkatla var systir Jóreiðar, móðir Þorkels
Geitissonar og þeirra Þiðranda. Þorsteinn hét bróðir Halls og var kallaður
breiðmagi. Son hans var Kolur er Kári vegur í Bretlandi. Synir Halls af Síðu
voru þeir Þorsteinn og Egill, Þorvarður og Ljótur og Þiðrandi sá er drápu
dísir.

Þórir hét maður og var kallaður Holta-Þórir. Hans synir voru þeir Þorgeir
skorargeir og Þorleifur krákur og Þorgrímur hinn mikli.


97. kafli

Nú er þar til máls að taka að Njáll talaði við Höskuld fóstra sinn: "Ráðs
vildi eg þér leita fóstri og kvonfangs."

Höskuldi kveðst það vel að skapi og bað hann fyrir sjá "eða hvar vilt þú
helst á leita?"

Njáll svarar: "Kona heitir Hildigunnur og er Starkaðardóttir Þórðarsonar
Freysgoða. Þann veit eg kost bestan."

Höskuldur mælti: "Sjá þú einn fyrir fóstri minn. Það skal mitt ráð sem þú
vilt vera láta."

"Hér munum við á leita," segir Njáll.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa