"Þau ein skipti munum við við eigast," segir Helgi, "að þér mun ekki betur
gegna."

Skarphéðinn mælti: "Skiptið ekki orðum við Hrapp en gjaldið honum rauðan
belg fyrir grán."

Hrappur mælti: "Þegi þú Skarphéðinn, ekki skal eg spara að bera mína öxi að
höfði þér."

"Reynt mun slíkt verða," segir Skarphéðinn, "hver grjóti hleður að höfði
öðrum."

"Farið heim taðskegglingar," segir Hallgerður, "og munum vér yður svo jafnan
kalla héðan í frá en föður yðvarn karl hinn skegglausa."

Þeir fóru eigi fyrr heim en allir urðu sekir þessa orða, þeir er fyrir voru,
nema Þráinn. Hann þekti menn af orðum þessum.

Þeir fóru í braut Njálssynir og fóru þar til er þeir komu heim. Þeir sögðu
föður sínum.

"Nefnduð þér nokkura votta að orðunum?" segir Njáll.

"Enga," sagði Skarphéðinn, "vér ætlum ekki að sækja þetta nema á
vopnaþingi."

"Það mun engi nú ætla," segir Bergþóra, "að þér þorið handa að hefja."

"Haf þú lítinn við húsfreyja," segir Kári, "að eggja sonu þína því að þeir
munu þó ærið framgjarnir."

Eftir það tala þeir lengi hljótt allir feðgar og Kári.


92. kafli

Nú verður umræða mikil um deild þeirra og þóttust allir vita að eigi mundi
svo gert sjatna.

Runólfur son Úlfs aurgoða austur í Dal var vin Þráins mikill og hafði boðið
Þráni heim og var ákveðið að hann skyldi koma austur er þrjár vikur væru af
vetri eða mánuður.

Þráinn bað til þessar ferðar Hrapp með sér og Grana Gunnarsson, Gunnar
Lambason, Lamba Sigurðarson og Loðin og Tjörva. Þeir voru átta. Þær skyldu
og fara mæðgur Hallgerður og Þorgerður. Því lýsti og Þráinn að hann ætlaði
að vera í Mörk með Katli bróður sínum og kvað á hversu margar nætur hann
ætlaði heiman að vera. Þeir höfðu allir alvæpni. Riðu þeir austur yfir
Markarfljót og fundu þar konur snauðar. Þær báðu að þær skyldi reiða vestur
yfir fljótið. Þeir gerðu svo.

Þá riðu þeir í Dal og höfðu þar góðar viðtökur. Þar var fyrir Ketill úr
Mörk. Sátu þeir þar tvær nætur. Runólfur og Ketill báðu Þráin að hann mundi
semja við Njálssonu en hann lést aldrei mundu fé gjalda og svaraði styggt og
kveðst hvergi þykjast varbúinn við Njálssonum hvar sem þeir fyndust.