Þá mælti Grímur: "Þú sækir fast að og væri vel að þú hefðir erindi."

Grímur þreif þá upp spjót og skaut undir kverk Ásláki og hafði hann þegar
bana. Litlu síðar vó Helgi Egil merkismann jarls. Þá sótti að Sveinn
Hákonarson og lét bera að þeim skjöldu og urðu þeir þá handteknir báðir
Njálssynir.

Jarl vildi þegar láta drepa þá en Sveinn kvað það eigi skyldu og sagði að
væri nótt.

Þá mælti jarl: "Drepið þá á morgun en bindið þá rammlega í nótt."

"Svo mun vera verða," segir Sveinn, "en eigi hefi eg vaskari menn fyrir
fundið en þessa og er það hinn mesti mannskaði að taka þá af lífi."

Jarl mælti: "Þeir hafa drepið tvo hina vöskustu vora menn og skulum vér
þeirra svo hefna að þessa skal drepa."

"Menn voru þeir að vaskari," segir Sveinn, "en þó mun þetta gera verða sem
þú vilt."

Voru þeir þá bundnir og fjötraðir.

Eftir það sofnaði jarl og hans menn. En er þeir voru sofnaðir mælti Grímur
til Helga: "Braut vildi eg komast ef eg mætti."

"Leitum í nokkurra bragða þá," segir Helgi.

Grímur segir að þar nær honum liggur öx og horfir upp eggin. Grímur skreið
þangað til og fær skorið af sér bogastrenginn við öxinni en þó fékk hann sár
mikil í höndunum. Þá leysti hann Helga. Eftir það skreiddust þeir fyrir borð
og komust á land svo að þeir jarl urðu ekki varir við. Þeir brutu af sér
fjötrana og gengu annan veg á eyna. Tók þá að morgna. Þeir fundu þar skip og
kenndu að þar var kominn Kári Sölmundarson. Fóru þeir þegar á fund hans og
sögðu honum hrakning sína og sýndu honum sár sín og kváðu þá mundi jarl í
svefni.

Kári mælti: "Illa verður slíkt er þeir skulu taka hrakningar fyrir vonda
menn er saklausir eru eða hvað er nú gert næst skapi ykkru?"

"Fara að jarli," sögðu þeir, "og drepa hann."

"Ekki mun oss þess auðið verða." segir Kári, "en ekki skortir ykkur áhuga.
En þó skulum vér vita hvort hann er þar nú."