"Eigi vildi eg herra," segir Þráinn, "að þér vænduð mig lygi heldur vildi eg
að þér leituðuð um skipið."

Þá fór jarl upp á skipið og leitaði og fann eigi.

Þráinn mælti: "Berið þér mig nú undan herra?"

"Fjarri fer það," segir jarl, "en eigi veit eg hví vér finnum hann eigi. Eg
þykist sjá allt í gegnum þá er eg kem á land en þá sé eg ekki til er eg kem
hér."

Lætur hann þá róa til lands með sig. Hann var svo reiður að ekki mátti við
hann mæla. Sveinn son hans var þar með honum.

Hann mælti: "Undarlegt skaplyndi er það að láta óverða menn gjalda reiði
sinnar."

Jarl gekk þá enn einn frá öðrum mönnum. Síðan gekk hann þegar aftur til
þeirra og mælti. Róum vér enn út til þeirra."

Þeir gerðu svo.

"Hvar mun hann fólginn hafa verið?" segir Sveinn.

Jarl svaraði: "Eigi mun það nú skipta því að hann mun nú í brautu vera
þaðan. Sekkar tveir lágu þar hjá búlkanum og mun Hrappur þar hafa komið í
staðinn þeirra í búlkann."

Þráinn tók til orða: "Fram hrinda þeir enn skipinu og munu enn ætla út
hingað til vor. Skulum vér nú taka hann úr búlkanum og koma öðru í staðinn
en þó skulu sekkarnir lausir."

Þeir gerði svo. Þá mælti Þráinn: "Látum vér Hrapp nú í seglið, það er heflað
upp við rána."

Þeir gera svo. Jarl kemur nú til þeirra.

Var hann þá allreiður og mælti: Vilt þú nú selja fram manninn Þráinn? Og er
nú verra en fyrr."

Þráinn svarar: "Fyrir löngu seldi eg hann fram ef hann væri í minni
varðveislu eða hvar mun hann verið hafa?"

"Í búlkanum," segir jarl.

"Hví leituðuð þér hans eigi þar þá?" segir Þráinn.

"Eigi kom oss það þá í hug," segir jarl.

Síðan leituðu þeir hans um allt skipið og fundu hann eigi.

Þá mælti Þráinn: "Viljið þér mig nú undan bera herra?"

"Víst eigi," segir jarl, "því að eg veit að þú hefir fólgið manninn þó að eg
finni hann eigi. En heldur vil eg að þú níðist á mér en eg á þér."

Fór jarl þá til lands.

"Nú þykist eg sjá," sagði jarl, "hvar Þráinn hefir fólgið Hrapp."