Am sending this segment early because and ice storm is forcast for tomorrow
and we could lose power.

Grace



"Eigi munu goðin þessu valda," segir jarl. "Maður mun brennt hafa hofið en
borið út goðin. En goð hefna eigi alls þegar. Mun sá maður braut rekinn úr
Valhöllu og þar aldrei koma er þetta hefir gert."

Í því bili hljópu þangað menn jarls fjórir og sögðu þeim ill tíðindi,
kváðust fundið hafa á akrinum þrjá menn vegna en særðan Þránd til ólífis.

"Hver mun slíku valda?" segir jarl.

"Víga-Hrappur," sögðu þeir.

"Þá mun hann hafa brennt goðahúsið," segir jarl.

Þeim þótti hann víst til þess líklegur.

"Hvar mun hann nú vera?" sagði jarl.

Þeir sögðu að Þrándur segði að hann hefði lagst niður í runna nokkura.

Jarl fer þangað að leita og var Hrappur þá allur í brautu. Skipaði jarl þá
til að leita hans og fundu þeir hann eigi. Jarl var sjálfur í leitinni og
bað hann þá hvílast fyrst.

Jarl gekk þá einn saman braut frá öðrum mönnum og bað engan mann með sér
ganga og dvaldist um stund. Hann féll á knébeð og hélt fyrir augu sér. Síðan
gekk hann aftur til þeirra.

Hann mælti: "Gangið þér með mér."

Þeir gengu með honum. Hann gekk þvers af leiðinni þeirri er þeir höfðu áður
farið og komu að dalverpi einu. Þar spratt Hrappur upp fyrir þeim og hafði
hann þar fólgið sig áður. Jarl eggjar menn að hlaupa eftir honum en Hrappur
var svo fóthvatur að þeir komust hvergi í nánd honum.

Hrappur stefndi til Hlaða. Þar voru þeir þá búnir til hafs hvorirtveggju,
Þráinn Sigfússon og Njálssynir. Hrappur hleypur þar að sem þeir eru fyrir
Njálssynir.

Hann mælti: "Bjargið mér góðir drengir því að jarl vill drepa mig."

Helgi leit við honum og mælti: "Ógæfusamlega líst mér á þig og mun sá betur
hafa er eigi tekur við þér."

"Það mundi eg vilja," segir Hrappur, "að þið hlytuð af mér mest illt."

"Menn erum við til þess," segir Helgi, "að launa þér það þá er stundir
líða."