"Alllítt lætur þú mig njóta mágsemdar," segir Hrappur, "en eigi hefir þú það
mannval að þetta muni skjótlega gera."

Þeir stóðu upp en hann hopaði út undan. Þeir hlaupa eftir en hann kemst á
skóg undan og höfðu þeir hans ekki. Guðbrandur safnar liði og lét kanna
skóginn og finna þeir hann eigi því að skógurinn var mikill og þröngur.

Hrappur fer um skóginn þar til er hann kom í rjóður nokkurt. Þar fann hann
húsabæ og mann úti og klauf skíð. Hann spurði þenna mann að nafni og
nefndist hann Tófi. Tófi spurði að hans nafni og nefndist Hrappur sem hann
hét. Hrappur spyr hví bóndi byggi svo fjarri öðrum mönnum.

"Því," sagði hann, "að eg þykist hér lítt þurfa að amast við aðra menn."

"Við förum kynlega með okkur um málin," segir Hrappur, "og mun eg fyrri
segja þér hver eg er. Eg hefi verið með Guðbrandi í Dölum og stökk eg þaðan
fyrir það er eg drap verkstjóra hans. En eg veit að við erum báðir illmenni
því að þú mundir ekki hér kominn frá öðrum mönnum nema þú værir nokkurs
manns útlagi. Og geri eg þér tvo kosti að eg mun segja til þín eða við
njótum báðir jafnt þess er hér er."

Bóndi mælti: "Þetta er jafnt sem þú segir. Eg nam konu þessa er hér er hjá
mér og hefir margur maður eftir mér leitað."

Síðan leiddi hann Hrapp inn með sér. Þar voru hús lítil og vel ger. Bóndi
sagði húsfreyju sinni að hann hafði Hrapp ráðið með sér.

"Flestir munu af manni þessum illt hljóta," segir hún, "en þó munt þú ráða
vilja."

Síðan var Hrappur þar. Hann var förull mjög og var aldrei heima. Hann fær
náð fundi Guðrúnar jafnan. Þeir sátu um hann feðgar, Þrándur og Guðbrandur,
og varð það aldrei að þeir fengju færi á honum. Og fór svo fram öll þau
misseri.

Guðbrandur lét segja Hákoni jarli hver vandræði hann hafði af Hrappi. Jarl
lét dæma Hrapp útlaga og lagði fé til höfuðs honum en hét þá að fara sjálfur
að leita eftir honum en það fórst þó fyrir og þótti jarli þeim sjálfrátt að
taka hann er hann fór svo óvarlega.