Og þar kom að hann slóst á tal við Guðrúnu dóttur Guðbrands svo að það
töluðu menn að hann mundi fífla hana. En er Guðbrandur varð þess var taldi
hann á hana mjög er hún átti tal við Hrapp og bað hana að varast að mæla
nokkuð við hann svo að eigi heyrðu allir menn. Hún hét góðu um fyrst en þó
dró til vanda um tal þeirra. Þá setti Guðbrandur til Ásvarð verkstjóra sinn
að ganga með henni hvert er hún færi.
Einu hverju sinni var það að hún beiddist að fara á hnotskóg að skemmta sér
og fylgdi Ásvarður henni. Hrappur leitar eftir þeim og finnur þau á
hnotskóginum. Hann tók í hönd Guðrúnu og leiddi hana eina saman. Síðan fór
Ásvarður að leita hennar og fann þau í runni einum liggja bæði saman. Hann
hleypur að með öxi reidda og hjó til fótar Hrapps en Hrappur brást við fast
og missti Ásvarður hans. Hrappur spratt á fætur sem skjótast og þreif öxi
sína. Síðan vildi Ásvarður undan snúast. Hrappur höggur í sundur í honum
hrygginn.
Þá mælti Guðrún: "Nú hefir þú unnið er þú munt eigi með föður mínum lengur
vera. En þó er það sumt er honum mun enn verr þykja því að eg fer með
barni."
Hrappur svarar: "Eigi skal hann þetta af öðrum spyrja og skal eg fara heim
og segja honum hvorttveggja."
"Þá munt þú eigi með fjörvi í braut komast," segir hún.
"Á það skal hætta," segir hann.
Eftir það fylgir hann henni til kvenna annarra en hann fór heim.
Guðbrandur sat í öndvegi og var fátt manna í stofunni. Hrappur gekk fyrir
hann og bar hátt öxina.
Guðbrandur spurði: "Hví er blóðug öx þín?"
"Eg gerði að bakverk Ásvarðar verkstjóra þíns," segir Hrappur.
"Það mun eigi af góðu," segir Guðbrandur. "Þú munt hafa vegið hann."
"Svo er víst," segir Hrappur.
"Hvað var til saka?" segir Guðbrandur.
"Lítið mundi yður þykja," segir Hrappur. "Hann vildi höggva af mér fótinn."
"Hvað hafðir þú til gert áður?" segir Guðbrandur.
"Það er hann átti enga sök á," segir Hrappur.
"Þó mátt þú segja hvað það var," segir Guðbrandur.
Hrappur mælti: "Ef þú vilt það vita þá lá eg hjá Guðrúnu dóttur þinni og
þótti honum það illa."
Guðbrandur mælti: "Standi menn upp og taki hann og skal hann drepa."